20.5.2017 21:30

0+0=0 hjá Degi B. - Sigurður Ingi gegn Trump og Le Pen í Framsókn

Allt tal stjórnmálamanna nú 15 árum síðar um rannsókn á einkavæðingu bankanna er hluti af popúlisma í anda Trumps og Le Pen. Þess vegna er mikil þverstæða í setningarræðu Sigurðar Inga á miðstjórnarfundinum.

Í Morgunblaðinu birtist frétt á forsíðu í dag þar sem vitnað er í Dag B. Eggertsson borgarstjóri um að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni, borgarlína tengi Vatnsmýrina við nýjan flugvöll í Hvassahrauni sem að auki verði tengdur með lest við Keflavíkurflugvöll.

Ætla má að þessi skýjaborg verði kosningastefna Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum vorið 2018. Hér hefur verið bent á að fyrir um 20 árum boðaði R-listinn forveri Samfylkingarinnar og þess meirihluta sem nú stjórnar borginni að brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni væri á næsta leiti og Sundabraut yrði snarlega lögð, líklega á brú.

Þegar yfirlýsing Dags B. er lesin og hugað að fyrri yfirlýsingum úr sömu átt um samgöngur í lofti og á landi er rétt að minnast að 0+0 = 0

Framsóknarflokkurinn hélt miðstjórnarfund í dag. Fyrir fundinn tókst fámennum hópi í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson (SDG), fyrrv. formann, að búa til spuna og telja fjölmiðlamönnum trú um átaka- eða uppgjörsfund þar sem saumað yrði að Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni og arftaka SDG sem forsætisráðherra.

Sigurður Ingi taldi í sjónvarpsviðtali eftir fundinn að ekki ætti að kenna hann við átök heldur hreinskilni. Lilja Alfreðsdóttir vararaformaður sagði hins vegar að um átakafund hefði verið að ræða. SDG fékk ekki af sér að hrósa ræðu Sigurðar Inga enda telur SDG að hann lumi sjálfur á leyndarmáli til bjargar þjóðinni sem aðeins sé á valdi hans. SDG sagði að ekki væri eftir fundinn unnt að tala um fámennan hóp sem teldi flokkinn á rangri braut undir veikri forystu.

Framsóknarmenn ætla að halda flokksþing, þar sem formaður er kjörinn, í janúar 2018. Virðist hafa verið málamiðlun stríðandi hópa á fundinum að flýta flokksþinginu. Sigurður Ingi vill halda áfram, SDG ætlar að hugsa málið.

Í setningarræðu miðstjórnarfundarins sagði Sigurður Ingi að stefna Framsóknarflokksins yrði reist á sama grunni og áður. Stefnan þyrfti ekki að breytast þótt einhverjir segðu heiminn að breytast. Hann sagði:

„En hver er sú stefna, hverjir eru þeir straumar, af hverju erum við að missa; vilja menn feta sig á slóð forseta Bandaríkjanna eða Le Pen í Frakklandi og fleiri úr þeim ranni? Er einhver í þessum sal sem telur að þar liggi tækifæri Framsóknarflokksins? Er einhver sem telur að með því að víkja frá hefðbundnum gildum flokksins muni fylgið sópast að honum?

Við vinnum ekki á forsendum auðvaldsins, heldur manngildisins; hins almenna borgara, hvar sem hann er í samfélaginu, hver sem hann er, og hvaðan sem hann kemur. Við þá vinnu er nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum. Við eigum ekki að líða eitthvert leynimakk – leyndarhyggju. Við höfum ekkert að fela. Það er til að mynda sjálfsagt í mínum huga að Alþingi láti rannsaka einkavæðingu banka og sölu almannagæða, hver sem þau eru og hvenær sem salan átti sér stað. Og að mörgu leyti tel ég að það geti verið ein af forsendum þess að auka traust í samfélaginu. Og traust er mikilvægt.“

Af þessum orðum má draga þá ályktun að þeir sem berjist gegn stefnu hans innan flokksins vilji feta í spor Trumps og Marine Le Pen í Frakklandi. Átti hann við SDG og menn hans?

Gamaldags er að tala um „auðvaldið“ nú á tímum og láta eins og í því felist andstæða við „manngildi“. Er Sigurður Ingi að draga skil á milli sín og SDG með þessum orðum og einnig með því sem síðar segir um leynimakk og leyndarhyggju? Vildi hann minna miðstjórnina á að SDG hafði haldið sjónvarpssamtalinu sem varð honum að falli í apríl 2013 leyndu fyrir þingflokki og nánustu samstarfsmönnum sínum?

Sigurður Ingi vill örugglega einnig draga skil á milli Framsóknarmanna og sölunnar á Búnaðarbankanum þar sem Ólafur Ólafsson bjó til fléttu til að hagnast sem mest sjálfur. Ólafur segist ekki vera Framsóknarmaður þótt allir telji hann hafa verið það.

Á meðan Landsbankinn var í ríkiseign ákvað Sverrir Hermannsson bankastjóri að fela Ólafi að stjórna Samskipum og vinna að sölu fyrirtækisins sem var 85% í eign bankans. Ólafur keypti Samskip með svipaðri aðferð og Búnaðarbankann. 

Allt tal stjórnmálamanna nú 15 árum síðar um rannsókn á einkavæðingu bankanna er hluti af popúlisma í anda Trumps og Le Pen. Þess vegna er mikil þverstæða í setningarræðu Sigurðar Inga á miðstjórnarfundinum.

Í stað þess að snúa klukkunni til baka ættu stjórnmálamenn að huga að þeim einstaklingum í samtímanum sem eignuðust bankanna og brugðust trausti með ofurgræðgi sem á ekkert skylt íhaldssemi og auðvald. Allt annað ræður ferðinni enn þann dag í dag.