11.1.2006 22:51

Miðvikudagur 11. 01. 06.

Það var einkennilegt að heyra Jónas Kristjánsson, ritstjóra DV, tönnlast á því í Kastljósi í kvöld, að það væru sérstaklega pólitíkusar, sem hefðu ýtt undir óánægju fólks og andúð á fréttaflutningi blaðs hans, þar sem fólk er svipt ærunni á forsíðu dag eftir dag og nú með hörmulegum afleiðingum á Ísafirði, þar sem karl tekur eigið líf og skilur eftir sig bréf um að hann hafi bugast vegna frásagnar DV af honum á forsíðu vegna máls, sem blaðið segir enn í rannsókn.

Jónasi er mjög í nöp við pólitíkusa, hann kallar okkur suma gjarnan fasista til að bragðbæta órhróðurskrif sín um okkur og nú er það sem sé sérstaklega pólitíkusum að kenna, að mönnum blöskrar, hvernig hann stýrir blaði sínu.

Ástæða er til að minna á, að þessar forsíður DV eru ekki aðeins birtar á því blaði - þær eða aðrar krassandi árásarfyrirsagnir á einstaklinga birtast einnig sem auglýsingar í hinu Baugsblaðinu, Fréttablaðinu, sem borið er til fólks, hvort sem það vill fá það eða ekki - auglýsendur, áskrifendur eða kaupendur sitja uppi með DV. Þá mun algengt, að plaköt með DV-forsíðum séu hengd upp viðskiptavinum Baugsbúðanna til ánægjuauka og minna þau þar á dreifimiða um eftirlýsta við knæpur í villta vestrinu fyrr á öldum - enda skilst manni að tilgangur DV sé sá, að fullnægja réttlætinu á eigin forsendum, enda geti aðrir ekki gert það betur, þar sem blaðið láti sannleikann en ekki tillitssemi ráða ferð.

Ég vorkenni forystumönnum Blaðamannafélags Íslands að þurfa að tjá sig út og suður um þetta mál af tillitssemi við félagsmenn, sem hafa meginreglur félagsins að engu en nota það sem skálkaskjól. Trúverðugleiki blaðamanna styrkist ekki við slíkan blindingsleik.