12.8.2025 10:47

Vopnasölubann Merz

Gagnrýni á Merz fyrir að bregðast trausti Ísraela sprettur ekki síst af djúpstæðum tilfinningum í þýsku þjóðarsálinni. Þá er hann sakaður um skort á samráði við töku ákvörðunarinnar. 

Kristilegi demókratinn Friedrich Merz hefur nú verið kanslari Þýskalands í 100 daga. Hann tók við af Angelu Merkel innan Kristilega demókrataflokksins (CDU). Hún var eðlisfræðingur og kom úr fræðasamfélagi Austur-Þýskalands inn í stjórnmálin. Merz er lögfræðingur sem hóf ungur stjórnmálaþátttöku meðal kristilegra í Vestur-Þýskalandi og hefur tengst þýsku fjármálalífi.

Merkel gagnrýndi Merz í janúar 2025 þegar hann tók höndum saman við þingmenn AfD á þýska þinginu til að samþykkja breytingu á útlendingalögunum. Hún óskaði honum alls góðs þegar hann varð kanslari 6. maí 2025 en síðan hefur hún ekki sagt neitt um stjórn hans eða stjórnarhætti.

25003928-frances-president-emmanuel-macron-l-germanysÞað hvílir sífellt meira á leiðtogum Evrópuríkja. Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Friedrich Merz Þýskalandskanslari og Sir Keir Starmer, forætisráðherra Breta.

Skyndiákvarðanir einkenndu ekki stjórnarhætti Merkel. Tvær má þó nefna:

Í mars 2011, eftir kjarnorkuófarirnar í Fukushima í Japan vegna náttúruhamfara, ákvað Merkel óvænt að loka öllum kjarnorkuraforkuverum í Þýskalandi. Var síðasta verinu lokað um miðjan apríl 2023. Við þetta urðu Þjóðverjar enn háðari olíu og gasi frá Rússum.

Árið 2015 kom Merkel Þjóðverjum og heiminum öllum á óvart þegar hún tók skyndiákvörðun um að opna þýsku landamærin fyrir flóttafólki frá Mið-Austurlöndum, einkum Sýrlandi. Ákvörðunin reyndist ekki aðeins skaðleg fyrir Þýskaland heldur Evrópu í heild.

Nú sætir Friedrich Merz gagnrýni á heimavettvangi vegna skyndiákvörðunar sem hann tók föstudaginn 8. ágúst þegar hann tilkynnti að Þjóðverjar myndu ekki selja Ísraelum áfram vopn til nota á Gaza. Þetta gerði kanslarinn eftir að Ísraelsstjórn hafði lýst áformum um að hertaka Gazaborg. Taldi Merz að ákvörðun um hertökuna þjónaði engum tilgangi í ljósi höfuðmarkmiðs stríðsins, að knýja Hamas til að sleppa gíslum sínum.

Fjölmiðlar segja að einkum ungt fólk styðji ákvörðun Merz. Á hinn bóginn hvílir sektarkennd gagnvart gyðingum vegna helfararinnar enn á mörgum Þjóðverjum og meðal þeirra hefur jafnan ríkt mikill stuðningur við Ísraelsríki.

Gagnrýni á Merz fyrir að bregðast trausti Ísraela sprettur ekki síst af djúpstæðum tilfinningum í þýsku þjóðarsálinni. Þá er hann sakaður um skort á samráði við töku ákvörðunarinnar. Hann hafi hræðst mótmæli Palestínuvina og gyðingahatara.

Flokksbróðir Merz og forsætisráðherra Hessen, Boris Rhein, sagði á X: „Það er aðeins unnt að takast á við hryðjuverkasamtökin Hamas á vígvellinum, ekki við ráðstefnuborðið...“.

Einn forystumanna CSU, systurflokks CDU í Bæjaralandi, sagði við blaðið Bild að CSU stæði alls ekki að þessari ákvörðun og þætti hún vafasöm.

Óljóst er hver verða áhrif ákvörðunar Merz á stríðsrekstur Ísraela. Hitt er ljóst að á heimavelli í Þýskalandi verður kanslarinn dæmdur af þessari ákvörðun, skynsemi hennar, aðferðinni við töku hennar og áhrifum út á við.

Þýskaland er öflugasta ríki Evrópu á tímum þegar stríð er háð í Evrópu og forsetar Bandaríkjanna og Rússlands vilja halda Evrópumönnum frá ákvörðunum um lyktir stríðsins. Það eykur á óvissu meðal Evrópuþjóða ef Þýskalandskanslari ætlar óvænt að fara eigin leiðir í viðkvæmum alþjóðamálum.