25.7.2017 15:49

Viðreisn og pólitíski ómöguleikinn

Viðreisn stendur frammi fyrir pólitískum ómöguleika í evru-málinu, hún finnur hvergi neinn sem vill vinna að framgangi þess með henni.

Augljóst er Viðreisn ætlar að standa og falla með stefnunni á ESB og evruna þótt hún hafi samið um frávik frá henni með aðild að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Raunar var aldrei við öðru að búast en forystumenn flokks sem var stofnaður á þeim grunni að standa ætti við kosningaloforð en ella víkja til hliðar rembdust við að telja að minnst kosti sjálfum sér trú um að marka mætti orð þeirra.

Viðreisn stendur frammi fyrir pólitískum ómöguleika í evru-málinu, hún finnur hvergi neinn sem vill vinna að framgangi þess með henni.

Telur einhver líklegt að Viðreisnarfólk ætli að fórna aðild að ríkisstjórn fyrir evruna? Jú, einn álitsgjafi er þeirrar skoðunar, Sigurjón Magnús Egilsson. Að lesa það sem hann segir um málið bendir til að hann komist í mikið uppnám vegna þessa.

Hann vill breyta þessari stefnufestu Viðreisnar í vonlausu baráttumáli hennar í vandamál fyrir Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Sigurjón Magnús segir á vefsíðu sinni í dag:

„Hversu sterkur er Bjarni?

Málflutningur formanns og nú varaformanns Viðreisnar kallar á mikil viðbrögð frá móðurflokki ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokki. Ekkert annað en einhverskonar uppgjör er fram undan. Gefur Viðreisn eftir í sókn sinni til framhaldslífs og umber Sjálfstæðisflokkurinn framgöngu Viðreisnar? Það er ólíklegt.

Þá er spurt hvort Bjarni Benediktsson sé nógu sterkur til að halda ríkisstjórninni saman. Hann hefur ekkert sýnt sem bendir til þess.“

Sigurjón Magnús áttar sig ekki á að þetta er ekki vandamál Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins heldur heimatilbúið vandamál Viðreisnarfólksins. Það samdi um aðild að ríkisstjórn á ákveðnum forsendum. Ef forystumenn Viðreisnar telja þessar forsendur brostnar vegna þess hve brýnt sé að taka upp evruna hljóta þeir að huga að samstarfi við einhverja sem eru sammála þeim.

Hverjir eru það? Þetta er spurningin sem vaknar.