21.8.2025 10:46

Vaxta- og verðbólgukrísa Kristrúnar

Veruleikinn er ekki í samræmi við óskir forsætisráðherra og hún hefur ekki látið verkin tala. Verðbólga hækkar og vextir hætta að lækka í fyrsta sinn síðan í október í fyrra eftir að Kristrún hefur verið á tánum í átta mánuði.

Kristrún Frostadóttir sagði fyrir kosningar í fyrra að undir hennar stjórn yrði efnahagslegur stöðugleiki endurheimtur, verðbólga kveðin niður og vaxtastig lækkað „og þetta er loforð“ var viðkvæðið hjá formanninum. Eftir að hún varð forsætisráðherra varð þetta loforð að engu. Nú er ríkisstjórn hennar ráðalaus megi marka orð Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra.

Á þingi 2. júní 2024 staðfesti Kristrún að Samfylkingin hefði kallað eftir „pólitískri ábyrgð“ vegna verðbólgu og vaxta. Til marks um það hefði ríkisstjórn hennar lagt fram fjármálaáætlun um hallalaus fjárlög árið 2027. Frá því að ríkisstjórnin settist að völdum 21. desember 2024 hefðu vextir lækkað um 1,75%, verðbólga væri komin undir 4%. Samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsreikningum frá Hagstofu Íslands hefði efnahagssamdráttur verið í fyrra en hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta væri fagnaðarefni.

Hún vildi gjarnan sjá vexti lækka hraðar og verðbólgu lækka hraðar en þetta myndi taka tíma. „Við munum þurfa að vera á tánum þegar að þessu kemur,“ sagði forsætisráðherra. Hún taldi „enn þá allt of dýrt að kaupa í matinn hérna“. Ríkisstjórnin hefði rætt hvaða leiðir væri hægt að fara í samkeppnismálum. Ríkisstjórnin velti fyrir sér hvort Samkeppniseftirlitið þyrfti að vera betur fjármagnað til þess að bjóða upp á frekari neytendavernd. Þetta yrði ævarandi verkefni þessarar ríkisstjórnar. Sjálf væri hún „með báða fætur á jörðinni“ og myndi halda sér og ríkisstjórninni „við verkefnin“.

Fyrir kosningarnar boðaði Kristrún að hún væri með „plan“. Í þessum orðum þegar hún svaraði fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, minnist hún ekki á neitt plan. Hún leitar skjóls í vaxtalækkunum sem má rekja til ákvarðana ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fyrir kosningarnar 2024.Að öðru leyti einkennist svar Kristrúnar af óskhyggju. Veruleikinn er ekki í samræmi við óskir forsætisráðherra og hún hefur ekki látið verkin tala. Verðbólga hækkar og vextir hætta að lækka í fyrsta sinn síðan í október í fyrra eftir að Kristrún hefur verið á tánum í átta mánuði.

Screenshot-2025-08-21-at-10.43.53Kristrún Frostadóttir og Daði Már Kristófersson (mbl.is/Karitas).

Í viðtali við Morgunblaðið miðvikudaginn 20. ágúst sagði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra að engin áætlun væri um hvernig bregðast ætti við versnandi sviðsmyndum. Daginn eftir sagði hann vaxtaákvörðun seðlabankans vonbrigði.

Fjármálaráðherrann viðurkenndi 20. ágúst að fjármálaáætlunin sem forsætisráðherra batt vonir við í ræðu sinni 2. júní hefði ekki staðið undir jákvæðum væntingum. Grípa yrði til meiri aðhaldsaðgerða. Hann gat ekki svarað hvernig standa ætti við loforð forsætisráðherra um 70 milljarða króna ný útgjöld til varnartengdra verkefna.

Fjármálaráðherrann er raunsærri en forsætisráðherrann sem sýnist gæla við einhvers konar verðlagsstjórn samkeppniseftirlits á matarverði. Fjármálaráðherra bendir hins vegar á húsnæðisliðinn sem undirrót verðbólgunnar. Ráðherrarnir tveir verða að stilla saman strengi sína og kynna „plan“. Ríkisstjórnin og efnahagslífið eru á rauðu ljósi þar til það gerist.