Upphafinn Trump
Hlýtur þetta að þykja undarlegt í augum fleiri en þetta skrifar. Vonandi á kosningabarátta eða sjálfsdýrkun frambjóðanda aldrei eftir að komast á þetta stig hér.
Dymbilvikuna nota einhverjir hér til að velta fyrir sér framboði til forseta Íslands. Vafalaust kynna einhverjir nýir sig til sögunnar eftir hátíðina.
Hér skal hins vegar birt frásögn af því hvernig Donald Trump notar kristna trú og örlög Jesús Krists sér til framdráttar í forsetaframboði sínu. Hlýtur þetta að þykja undarlegt í augum fleiri en þetta skrifar. Vonandi á kosningabarátta eða sjálfsdýrkun frambjóðanda aldrei eftir að komast á þetta stig hér:
Donald Trump - mynd frá 2020.
Donald Trump notar dymbilvikuna til að selja Biblíuna á 60 dollara, gagnrýnendum hans til mikillar hneykslunar en án mikilla viðbragða frá forstöðumönnum einstakra kristinna trúarsafnaða segir Zachary Basu á vefsíðunni Axios á skírdag (28. mars 2024).
Í greininni segir að Trump komist upp með það sem honum dettur í hug þegar litið sé til þess sem hann segir um trúmál. Hann hafi þrýst á og náð málamiðlun við fulltrúa íhaldsafla meðal kristinna safnaða sem viðurkenni að hann sé í senn gallagripur og áhrifamikill baráttumaður. Trump hafi löngum litið á kristinn boðskap sem innblástur í málflutningi sínum og hann ber meðal annars saman málaferli gegn sér og ofsóknirnar gegn Jesús.
Þegar Trump var forseti fylgdi hann stefnu sem heillaði hvíta kristna söfnuði sem studdu hann. Þetta gerði hann m. a. með því að skipa þrjá íhaldssama hæstaréttardómara sem ákváðu síðan að hafna Roe gegn Wade [hæstaréttardómi frá áttunda áratugnum um frjálsræði vegna þungunarrofs].
Zachary Basu segir að í kosningabaráttunni árið 2024 beri trúarlegt stef í boðskap Trumps og bandamanna hans vaxandi svip heimsslita – jafnvel endurlausnar – þegar þyngist undir fæti fyrir hann í réttarsölunum.
Trump heldur úti samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem birt er myndskeið sem sýnt er á kosningafundum Trumps. Þar heyrist þrumurödd sem hermir eftir Paul Harvey [frægum bandarískum útvarpsþuli] og segir: „Fjórtánda júní 1946 leit Guð niður til þess sem átti að verða paradís hans og sagði: „Mig vantar umsjónarmann“. Þá gaf Guð okkur Trump.“
Á fyrsta degi fjársvikamálaferlanna í New York í október birti Trump gervigreindarmynd úr réttarsal sem sýndi hann sitja þar við hliðina á Jesús.
Nú í vikunni birti Trump færslu sem hann sagðist hafa fengið frá stuðningsmanni sínum: „Það er kaldhæðnislegt að Kristur mátti þola verstu ofsóknir í sinn garð einmitt í sömu viku og þeir reyna að stela eignum þínum frá þér.“
Trump sótti hvorki kirkju reglulega né hampaði trú sinni áður en hann bauð sig fram til forseta árið 2016.