5.7.2024 10:15

Umskipti í Bretlandi

Íhaldsflokkurinn hefur nú farið 14 ár með stjórnarforystu í landinu. Undir lokin bognaði flokkurinn undan álaginu og við blöstu deilur. 

Umskiptin urðu dramatísk í breskum stjórnmálum milli sigurs Íhaldsflokksins í þingkosningunum 2019 og stórsigurs Verkamannaflokksins núna.

Sir Keir Starmer (61 árs), leiðtogi Verkamannaflokksins, með 411 þingmenn (+209), 174 þingmanna meirihluta, verður forsætisráðherra. Íhaldsflokkurinn fékk aðeins 121 þingmenn (-244), verstu úrslit fyrir í manna minnum.

Rishi Sunak tilkynnti afsögn sína sem forætisráðherra í Downing-stræti um 09.40 að ísl. tíma og baðst síðan lausnar á fundi með Karli konungi í Buckingham-höll. Sunak sagði jafnframt af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.

Screenshot-2024-07-05-at-10.14.20Sir Keir Starmer, nýr forsætisráðherra Bretlands.

Vegna einmenningskjördæmanna í Bretlandi verða sveiflur í þingmannafjölda meiri en hlutfall flokka af atkvæðum gefur til kynna. Verkamannaflokkurinn fær minna fylgi núna en þegar Jeremy Corbyn var leiðtogi hans. Corbyn náði kjöri núna sem frambjóðandi utan flokka eftir að Sir Keir Starmer setti honum afarkosti vegna gyðingaandúðar hans.

Kjörsóknin var 59,9%. Verkamannaflokkurinn fékk 33,8% (+1,6%), Íhaldsflokkurinn 23,7% (- 19,9%), Umbótaflokkur Nigel Farage (hann náði loks kjöri í áttundu tilraun) fékk 14,3% (+12,3%) (5 þingmenn) og Frjálslyndir 12,2% (+0,6) (71 þingmann +60).

Þegar Jeremy Corbyn tapaði fyrir Theresu May árið 2017 fékk Verkamannaflokkurinn 40%.

Þegar Sir Tony Blair leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs árið 1997 með 179 þingmanna meirihluta hlaut hann stuðning 43,2% kjósenda.

Boris Johnson leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs árið 2019 með 80 þingmanna meirihluta og 43,6% fylgi og árið 2015 tryggði David Cameron Íhaldsflokknum 10 þingmanna meirihluta með 36,9% atkvæða.

Nú hefst þar uppgjör og leit að nýjum leiðtoga í staðinn fyrir Rishi Sunak sem tók við af Liz Truss. Hún náði ekki kjöri að þessu sinni. Truss var forsætisráðherra í 49 daga. Margir höfðu veðjað á að Penny Mordaunt, leiðtogi Íhaldsflokksins í neðri deild þingsins, yrði flokksleiðtogi í stað Sunaks en hún hélt ekki þingsæti sínu.

Í Bretlandi er hreyfing sem berst fyrir upptöku hlutfallskosninga í stað einmenningskjördæma. Talsmenn breytinga í þá veru fyllast nú meiri baráttuvilja til að benda á óréttlætið sem felst í kosningakerfinu. Þeir tala þó örugglega áfram fyrir daufum eyrum. Rökin fyrir gildandi kerfi eru sterk, það sé þjóðinni fyrir bestu að geta kallað einn flokk til ábyrgðar.

Íhaldsflokkurinn hefur nú farið 14 ár með stjórnarforystu í landinu. Undir lokin bognaði flokkurinn undan álaginu og við blöstu deilur sem ekki tókst að halda innan dyra að baki öflugum forystumanni sem sameinaði.

Hlutfallstölurnar hér að ofan sýna að það var frekar óánægja með Íhaldsflokkinn en ákafi kjósenda til stuðnings Verkamannaflokknum sem leiddi til þessara sögulegu úrslita. Sir Keir Starmer hefur vonandi hæfileika til að sameina eigin flokk og bresku þjóðina til bjartari framtíðar.