Umsátur í Ottawa
Þúsundir manna mótmæltu í Ottawa laugardaginn 5. febrúar og hefur frumkvæði vörubílstjóranna kallað fram víðtæka andstöðu við stefnu Kanadastjórnar í COVID-19-sóttvörnum.
Þess er enn minnst þegar Sturla Jónsson skipulagði mótmæli vörubílstjóra hér í lok mars 2008 og var Sturla skipuleggjandi mótmælanna. Vörubílum var lagt á stórum umferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu og hindruðu þannig alla umferð. Mótmælt var háum olíusköttum, of stífum reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra og krafist breytinga á reglum um meirapróf.
Mótmæli Sturlu og félaga vöktu ekki heimsathygli eins og bílstjóra-mótmælin nú Ottawa, höfuðborg Kanada, og í borgum víðar um landið.
Lest vörubíla (Frelsislestin) hélt frá vesturströnd Kanada þvert yfir landið 23. janúar og kom til höfuðborgarinnar 29. janúar. Síðan hafa margir mótmælendur haldið kyrru fyrir í Ottawa og segjast ekki hverfa á braut fyrr en ríkisstjórn Kanada falli frá kröfu um að vörubílstjórar skuli bólusettir gegn COVID-19 ætli þeir að aka bílum sínum yfir landamærin til Bandaríkjanna.
Frá mótmælunum í Ottawa
Þúsundir manna mótmæltu í Ottawa laugardaginn 5. febrúar og hefur frumkvæði vörubílstjóranna kallað fram víðtæka andstöðu við stefnu Kanadastjórnar í COVID-19-sóttvörnum.
Í fréttum segir að 200 til 250 vörubílar séu enn í miðborg Ottawa í nágrenni kanadíska þinghússins. Bílstjórarnir þeyti oft hávær horn ökutækja sinna. Stuðningsmenn mótmælenda færi þeim eldsneyti á bílana. Kalt er í Ottawa á þessum árstíma og ylja bílstjórarnir sér utan dyra við elda sem þeir kveikja í görðum og við skurð sem er vinsæll meðal skautafólks.
Í The New York Times er sunnudaginn 6. febrúar haft eftir Peter Sloly, lögreglustjóra í Ottawa:
„Þetta er umsátur. Hér er eitthvað á ferðinni sem stangast á við lýðræði okkar, ég hef aldrei áður kynnst neinu sambærilegu. Við búum ekki yfir nægilega öflugu liði til að bregðast hæfilega við þessu ástandi samhliða annarri venjulegri löggæslu.“
Stax og vörubílalestin kom til Ottawa var gripið til þess öryggisráðs að flytja Justin Trudeau og fjölskyldu hans á felustað. Föstudaginn 4. febrúar lýsti Donald Trump, fyrrv. Bandaríkjaforseti, yfir stuðningi við vörubílstjórana. Í tilkynningu Trumps sagði:
„Frelsislestin er friðsamleg andstaða gegn grófri stefnu öfga vinstristefnu ofstækismannsins Justins Trudeaus sem hefur eyðilagt Kanada með brjálæðislegum COVID-fyrirmælum.“
Trudeau fékk COVIS-19 fyrir nokkrum dögum en alið hefur verið á orðrómi um að hann hafi leitað skjóls í Bandaríkjunum í stað þess að standa vaktina á tíma mótmælanna. Upplýsingafulltrúi forsætisráðherrans staðfesti við AP-fréttastofuna að Trudeau hefði ekki farið frá Kanada.
Repúblikaninn Chip Roy, fulltrúadeildarþingmaður frá Texas, magnaði orðróminn um flótta Trudeaus mánudaginn 31. janúar með því að segja á Twitter: „Sé Justin Trudeau í felum í Bandaríkjunum eigum við að senda hann til Kanada svo að hann standi strax frammi fyrir eigin þjóð. Enginn griðastaður fyrir COVID-harðstjóra á flótta.“
Það er ekki öll vitleysan eins. Þessi sýnir aðeins nauðsyn þess að losa strax um COVID-höftin. Miklu meira er nú í húfi en úrelt varðstaða um það sem ekki verður við ráðið.