Tvöfalda skimunarskyldan
Stökkbreytingar valda því að veiran dreifist hraðar meðal nágrannaþjóða. Til að verjast er óhjákvæmilegt að hækka varnarmúrinn við landamærin og það er gert með þessu.
Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum, sagði á upplýsingafundi almannavarna vegna COVID-19 fimmtudaginn 14. janúar brýnt að breyta sóttvarnalögum og miður að það hafi dregist fram á þetta ár, sóttvarnalækni skorti skýrari lagaheimildir og lögreglu skorti heimildir til að vísa fólki frá á landamærunum.
Sigurgeir sagði að hann og samstarfsmenn hans hefðu fengið 210 manns sem ætluðu að fara í 14 daga sóttkví til að láta frekar taka af sér sýni við landamærin. Sigurgeir nefndi 40 manna hóp sem hefði ekki ætlað í skimun, en síðan reyndust á annan tug þeirra smituð. „Það hefði ekki verið gott ef það hefði komist inn í landið,“ sagði Sigurgeir réttilega.
Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli (mynd: lögreglan).
„Sóttvarnalæknir hefur í tvígang reynt að afnema þessa 14 daga sóttkví, en ekki tekist. Þetta er smuga á landamærunum. Það er óviðunandi staða að ekki sé búið að laga löggjöfina. Sóttvarnalæknir skortir skýrari heimildir,“ sagði Sigurgeir. Oft hafi verið þörf á skýrari lögum en nú sé nauðsyn.
Þegar þessi orð féllu töldu ráðgjafar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að lög heimiluðu ekki að afnema 14 daga sóttkvíarregluna.
Fljótt skipast veður í lofti. Að loknum ríkisstjórnarfundi í hádegi föstudaginn 15. janúar tilkynnti heilbrigðisráðherra að síðdegis þann sama föstudag tæki gildi reglugerð sem skyldaði alla sem koma til landsins í tvöfalda, gjaldfrjálsa skimun með fimm daga sóttkví á milli. Gilda reglurnar að óbreyttu til 1. maí. Svandís var spurð um hvað hefði breyst, á ruv.is 15. janúar segir:
„Það sem breyttist í raun og veru er að við þurfum að horfast í augu við það hversu alvarleg staðan er og í ljósi þess telur mitt ráðuneyti að þetta sé undirbyggt af lögum. Auðvitað eru breytingar á sóttvarnalögum líka til meðferðar á Alþingi og ég vonast til þess að það klárist fljótt og vel.“
Í fréttatíma ríkisútvarpsins síðdegis laugardaginn 16. janúar var rætt við Trausta Fannar Valsson, dósent og forseta lagadeildar Háskóla Íslands, um tvöföldu skimunarskylduna. Hann telur skimunarskyldu við landamæri standast lög en spurning sé um lögheimild til að krefjast seinni skimunarinnar. Hann sagði:
„Eftir því sem hættan er meiri, því meiri er skylda framkvæmdavaldsins til að grípa inn í og því meiri eru líkurnar til þess að aðgerðirnar standist. En ég hefði talið að það færi betur á því að hafa þetta skýrara. Heimildina fyrir þessum tilteknu úrræðum.“
Stökkbreytingar valda því að veiran dreifist hraðar meðal nágrannaþjóða. Til að verjast er óhjákvæmilegt að hækka varnarmúrinn við landamærin og það er gert með þessu. Ef til vill reynir á fyrir dómstólum hvort skylda til seinni skimunar standist lög. Auðvitað eiga þingmenn að leggja sitt af mörkum til sóttvarna með því að afmá allan vafa í þessu efni og einnig um brottvísunarheimildir sé þess þörf.
Á mbl.is laugardaginn 16. janúar segir Sigurgeir Sigmundsson að nýju reglurnar fylli í smuguna á landamærunum og útiloki að inn flæði smitað fólk án þess að ýtrustu sóttvarna sé gætt. Heimildir til lokunar landamæranna eru og hafa verið í lögum. Til þeirra á að grípa með skýrum rökum hverju sinni.