6.12.2017 12:04

Tveir þjóðkunnir franskir listamenn kvaddir

Gjá er milli menningarheima í Evrópu. Tvö dæmi vegna andláts þjóðkunnra listamanna í Frakklandi.

Myndin sem birtist hér með þessum texta er af forsíðu franska blaðsins Le Figaro í dag miðvikudaginn 6. desember en aðfaranótt þriðjudags 5. desember andaðist franski rithöfundurinn Jean d'Ormesson 92 ára að aldri. Hann lét verulega að sér kveða í frönsku bókmennta- og menningarlífi, átti sæti í frönsku akademíunni og skrifaði reglulega í Le Figaro í rúm 40 ár.

Une_NL_20171206

Forsíða Le Figaro miðvikudaginn 6. desmber.

Enginn sem fylgst hefur með frönskum stjórnmálum undanfarna áratugi hefur komist hjá því að rekast á nafn rithöfundarins. Jafnan var birt langt viðtal við hann í Le Figaro þegar dró að kosningum þar sem hann lýsti stuðningi við andstæðinga sósíalista og dró taum borgaralegra frambjóðenda.

Virðing fyrir honum takmarkaðist ekki við borgaralega lesendur Le Figaro. Sósíalistinn François Hollande Frakklandsforseti sæmdi d'Ormesson til dæmis frönsku heiðursorðunni fyrir fáeinum árum og d'Ormesson naut einnig virðingar hins sósíalistann sem setið hefur í forsetahöllinni í París frá 1958, François Mitterrands.

Í minningarorðum um d'Ormesson í Le Figaro segir að hann hafi verið frægasti franski rithöfundur samtímans (l'écrivain français le plus célèbre de notre temps). Allir hafi þekkt hann á förnum vegi og eftirhermur líkt eftir honum. Hafi hann af alkunnum eldmóði talað um einhvern höfund dugði það til að bækur hans seldust grimmt í bókaverslunum.

Hann var ritstjóri Le Figaro 1974 til 1979 og vann þá ásamt Raymond Aron, áhrifamiklum borgaralegum álitsgjafa, að forsetakjöri Valerys Giscards d'Estaings.

Hér skal þessi saga frekar rakin en frá d'Ormesson er sagt til að minna á hve langt er á milli menningar- og stjórnmálaheima einstakra þjóða á Vesturlöndum (nokkrar bóka hans má nálgast í Þjóðarbókhlöðunni). Utan Frakklands er d'Ormessons ekki minnst á sama veg og þar er gert. Hann var aldursforseti frönsku akademíunnar, háborgar franskrar menningar.

Um sólarhring eftir að tilkynnt var um andlát þessa leiðtoga frönsku menningarelítunnar var sagt frá andláti listamanns sem átti áratugum saman hug og hjörtu fransks almennings. Söngvarinn Johnny Hallyday andaðist aðfaranótt miðvikudags 6. desember 74 ára að aldri, banamein hans var lungnakrabbamein. Á vefsíðu Le Monde sagði að horfin væri goðsögn franskra söngva. Hallyday hefði höfðað til almennings með persónu sinni, tilfinninganæmi og söngvum. Ferill hans væri engu líkur, hann hefði hljóðritað meira en 1000 upptökur, samið nokkur hundruð söngva og selt 110 milljón diska.

Johnny Hallyday

Á sjötta áratugnum hreifst Hallyday af Elvis Presley. Hann kom fyrst fram í sjónvarpi árið 1959, 16 ára gamall, og þá ákvað listrænn stjórnandi hjá Vogue að ráða hann í eitt ár. Fyrsta hljómplata hans kom út á árinu 1960 og hann sló síðan rækilega í gegn á fyrstu rokkhátíðinni í Palais des sports í París árið 1961.

Í samtali við Le Monde árið 1998 játaði hann að neyta kókaíns til að halda sér í  formi en þá var heilsa Hallydays farin að gefa sig. Aðdáendur hans hvöttu hann þó áfram til dáða og árið 2000 fagnaði hann 40 ára tónlistarferli sínum með því að bjóða til tónleika við Eiffel-turninn og sóttu þá um 500.000 manns. Hann lagðist á sjúkrahús með krabbamein árið 2009 en sneri aftur á tónleikasviðið árið 2010 og þar fagnaði hann 70 ára afmæli sínu árið 2013. Síðan efndi hann til tónleikaferðar um Frakkland og nágrannalönd en í mars 2017 hafði hann ekki lengur krafta til þess.

Þegar ég dvaldist í Belgíu undir lok sjöunda áratugarins varð ég fyrst var við þennan vinsæla franska rokksöngvara sem hélt risatónleika meðal frönsku mælandi þjóða. Frakkar hafa sjálfir sagt að gífurlegar vinsældir Hallydays í heimalandinu en lítil frægð hans utan þess sé skýrt dæmi um gjána milli franskrar dægurmenningar og þess sem gerist annars staðar. Þeir keppa sífellt við áhrif frá Bandaríkjunum og leggja þess vegna ríka áherslu á að styðja við bakið á franskri kvikmyndagerð. Johnny Hallyday var mikilvægur varðmaður franskrar dægurmenningar á tíma útrásarinnar frá Bandaríkjunum.

Hallyday lifði hátt með mörgum konum og hefur í tæp 60 ár verið eitt helsta umræðuefni „séð-og-heyrt blaða“ í Frakklandi og Belgíu. Hafi elítublöðin misst leiðtoga með d'Ormersson hafa glansblöðin misst vinsælt viðfangsefni með Hallyday. Þetta á þó nær eingöngu við um frönsku mælandi heiminn, við hin fréttum varla af þessu.