Toppfundir nú og þá
Þegar rennt er yfir fyrirsagnir frétta og fréttaskýringa eftir Alaskafundinn blasir sú skoðun við lesandanum að Pútin komi með pálmann í höndunum frá honum.
Alþjóðlegir fjölmiðlar leggja misjafnlega mikið undir í aðdraganda leiðtogafunda. Allt sem snertir Donald Trump dregur að sér mikla athygli og þegar fyrir dyrum stendur að hann ætli að hitta Vladimir Pútin fer allt á annan endann eins og við höfum kynnst undanfarna daga.
Fundur þeirra var í gær, 15. ágúst, í Anchorage í Alaska. Miðað við gauraganginn fyrir hann og spádóma um það sem þar kynni að gerast reyndist það næsta lítið. Á tólf mínútna sameiginlegum blaðamannafundi eftir tæplega þriggja tíma viðræður kom það eitt fram að þeir teldu að miðað hefði í rétta átt en ekki meira en það. Ekkert samkomulag var kynnt. Trump sagðist ætla að hringja í Zelenskíj, leiðtoga nokkurra Evrópuríkja og framkvæmdastjóra NATO.
Að morgni laugardagsins 16. ágúst sagði Trump á miðli sínum Truth Social að hann og viðmælendur sínir teldu að ekki ætti að stefna að vopnahléi í Úkraínu heldur ganga beint til friðarviðræðna. Þetta er stefnubreyting hjá Trump. Hvað hún þýðir veit enginn.
Í dálki mínum í Morgunblaðinu í dag segi ég að aðdragandi þessa fundar núna minni dálítið á það þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða í október 1986. Enginn vissi þá hvað kynni að gerast og fundinum lauk án samkomulags þótt hann sé síðan talinn hafa skipt miklu til að brjóta ísinn í kalda stríðinu milli leiðtoga Vesturlanda og Sovétríkjanna. Fyrirsögn mín í blaðinu í dag er því: Trump og Pútin brjóta ísinn í Alaska.
Eftir fundinn má velta fyrir sér hvort það hafi ekki einmitt tekist í Anchorage í gær og sé eini raunverulegi árangur þessa fundar.
Trump fagnar Pútin á rauða dreglinum á herflugvelli við Anchorage í Alaska 15. ágúst 2025.
Eftir Höfðafundinn var það almenn skoðun, að minnsta kosti hér á landi, að Gorbatsjov hefði komist betur frá honum en Reagan. Þeir efndu ekki til neins sameiginlegs blaðamannafundar fyrir þá mörg hundruð fjölmiðlamenn sem hingað komu vegna fundarins.
Gorbatsjov bauð til blaðamannafundar í stóra salnum í Háskólabíói, flutti ávarp og svaraði spurningum – skapaði sér góðvild. Reagan fór beint í bandarísku herstöðina á Keflavíkurflugvelli og ávarpaði samlanda sína þar sem æðsti yfirmaður þeirra.
Þetta mótaði almenningsálitið hér á leiðtogunum og andrúmsloftið um ágæti þeirra. Reagan er nú talinn meðal farasælustu Bandaríkjaforseta en Gorbatsjov er einskis metinn í Rússlandi og síst af öllu af Pútin og hans mönnum sem sækja fyrirmynd til Stalíns og endurskrifa söguna honum í vil ásamt endurreisn minnismerkja honum til heiðurs.
Þegar rennt er yfir fyrirsagnir frétta og fréttaskýringa eftir Alaskafundinn blasir sú skoðun við lesandanum að Pútin komi með pálmann í höndunum frá honum.
Trump viðurkennir aldrei ósigur heldur hannar frásögn sem breytir honum í sigur fyrir sig. Hann sagði við vin sinn Sean Hannity á FoxNews eftir fundinn að hann gæfi sér 10 af 10 fyrir fundinn vegna þess „góða skilnings“ sem hann hefði skapað milli sín og Pútins. „Þetta er sögulegur dagur“ sagði Hannity og hyllti vin sinn, forsetann kampakáta.
Næst kemur dómur sögunnar.