24.8.2025 11:18

Þrengir að forsætisráðherra

Í þessu ljósi ber það ekki vott um mikla stjórnlist á fyrstu átta mánuðum ríkisstjórnarinnar að forsætisráðherrann sitji með bæði þessi mál í fanginu án þess að ráða neitt við þau.

Í umræðum um störf og stefnu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er til einskis að treysta á miðla Sýnar eða ríkisútvarpsins. Þar er ekkert brotið til mergjar með spurningum til ráðherra eða á þann hátt sem talið er koma ráðherrum illa. Er furðulegt að sjá fjölmiðla dæma sig úr leik á þennan hátt. Þögnin starfar líklega af vilja til að hylma yfir vandræðagang ríkisstjórnarinnar.

I09-REP-trade-currency

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lagði pólitískar línur í samtali við Andreu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu laugardaginn 23. ágúst.

Af samtalinu má ráða að ríkisstjórnin sé komin í bullandi vörn í tveimur málum: vegna verðbólgunnar og ESB-aðildarumræðunnar.

Forsætisráðherra boðaði að hún ætlaði að helga sig baráttunni við verðbólguna. Er það í samræmi við sleggjustefnu hennar fyrir kosningar. Þá sagði hún höfuðmarkmið sitt að ná tökum á stjórn efnahagsmála. Tal um ESB-aðild væri bara til þess fallið að sundra þjóðinni.

Í þessu ljósi ber það ekki vott um mikla stjórnlist á fyrstu átta mánuðum ríkisstjórnarinnar að forsætisráðherrann sitji með bæði þessi mál í fanginu án þess að ráða neitt við þau.

Í samtalinu 23. ágúst sagði forsætisráðherra:

  • Við erum í þeirri stöðu að það er meiri þensla í kerfinu en við hefðum viljað sjá. Ég legg mikla áherslu á það að ríkisstjórnin finnur til ábyrgðar í þessu máli.
  • Við erum að skoða alvarlega aðgerðir til að bæta í aðhald, auka umbætur, bæta í hagræðingu, bæta í styrkingu á afgangi og aðhaldsstigi ríkissjóðs.
  • Við munum taka á því sem snýr að okkur. Við munum gera meira og hraðar ef þörf krefur og við tökum þetta mjög alvarlega.
  • Við erum ekki að eyða tíma í eitthvað núna sem tekur orku í annað.
  • Núna er eina leiðin til að bregðast við efnahagsástandinu sú að fólk finni til ábyrgðar í sínu nærumhverfi. Það gerir ríkisstjórnin.
  • Evrópumálin snerta ekki núverandi efnahagsástand. Það liggur alveg fyrir. Þessi ríkisstjórn er að horfa inn á við.

Þarna fer ekkert á milli mála, innhverf íhugun um efnahagsmálin, aukið aðhald og ábyrgð fólks og ríkisstjórnar í nærumhverfi sínu er það sem forsætisráðherra boðar þegar ríkisstjórnin vinnur að því að loka fyrstu fjárlögum sínum.

Í sumar talaði forsætisráðherra á þingi um að hækkun á matvælaverði stuðlaði að hækkun verðbólgu og gaf til kynna að slá mætti á hana með því að efla samkeppniseftirlit. Eru slíkar ráðstafanir á döfinni?

Fjármálaráðherra segir hins vegar að húsnæðiskostnaðarliðurinn sé helsta undirrót verðbólgunnar og boðar aðgerðir til að lækka hann.

Í áramótaávarpi sínu sagði Kristrún Frostadóttir að fyrsta verk ríkisstjórnar sinnar yrði að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Á fyrsta vinnudegi nýs árs myndi hún efna til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri.

Um 10.000 tillögur bárust í þessu samráði um hagsýnina og hafa nær allar verið jarðaðar. Traust til ríkisstjórnarinnar minnkar eftir því sem loforðasvikunum fjölgar.