17.6.2020 13:57

Það er kominn 17. júní!

Ræður sr. Elinborgar og forsætisráðherra og ávarp fjallkonunnar snerust eðlilega að verulegu leyti um COVID-19-farsóttina og áhrif hennar fyrri hluta árs 2020.

Gleðilega þjóðhátíð!

Þjóðhátíðardegi er fagnað í 76. skipti í dag. Hátíðarhöldin voru með hefðbundnu sniði fyrir hádegi við Austurvöll: hátíðarmessa í Dómkirkjunni þar sem sr. Elinborg Sturludóttir prédikaði, ræða forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur á Austurvelli og að þessu sinni var Edda Björgvinsdóttir leikkona í hlutverki fjallkonunnar og flutti ávarp eftir Þórdísi Gísladóttur (f. 1965), rithöfund og þýðanda.

Athyglissýki einstaklinga setti dálítinn svip á Austurvöll og nágrenni hans. Snorri Ásmundsson fór með gjörning á svölum Pósthússtrætis 13 klukkan 10.45 þar til lögreglan stöðvaði hann. Í samtali við mbl.is sagði Snorri meðal annars:

„Ég var fjallkonan og ég var rétt kominn af stað með ræðuna sem var afskaplega falleg og hvetjandi og jákvæð þegar lögreglan birtist á svölunum. Það kom mér að óvörum.“

Á mbl.is er gjörningurinn sagður heita „fyrsti karlmaðurinn til að vera fjallkona“ og hafi Snorri verið „íklæddur gullituðum pallíettustuttbuxum, með skikkjum hárkollu og skrautleg gleraugu“.

Ég varð fyrst var við Snorra í borgarstjórnarkosningum 2002 en þá elti hann stjórnmálamenn og hafði myndatökumann í för með sér.

1212985Á þessu skjáskoti af ríkissjónvarpinu má sjá forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur flytja þjóðhátíðarræðuna 2020 og borða og spjöld í baksýn. Hvers vegna áhorfendum er ekki hlíft við þessari auglýsingamennsku með skermi er einkennilegt.

Nokkrum sinnum hafa þeir sem bera einhver sérstök mál fyrir brjósti komið með spjöld á Austurvöll. Segir á mbl.is að á skiltum nú hafi verið mynd af Þorsteini Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og börnum hans með orðunum: „takk pabbi“ og „takk fyrir peninginn“. Þá var ritað á borða: „Við eigum nýja stjórnarskrá!“

Ekki kemur fram á mbl.is hverjir töldu sér sæma að setja þennan sérkennilega svip á hátíðarhöldin á Austurvelli. Auðvelt er að hlífa sjónvarpsáhorfendum við ósmekklegri auglýsingamennsku við styttuna á Jóni Sigurðssyni á þessum sameiningardegi þjóðarinnar með skermi á bak við flytjendur.

Ef til vill var það Stjórnarskrárfélagið sem beitti sér fyrir borða og spjöldum á Austurvelli þjóðhátíðardaginn 2020. Að minnsta kosti gorta félagsmenn þess af því að þeir eigi nýja stjórnarskrá og vísa þar til hálfkaraðs plaggs. Er efni skjalsins þannig að varla dettur nokkrum öðrum en þessum félagsskap í hug að eigna sér það.

Ræður sr. Elinborgar og forsætisráðherra og ávarp fjallkonunnar snerust eðlilega að verulegu leyti um COVID-19-farsóttina og áhrif hennar fyrri hluta árs 2020. Undir lok ræðu sinnar sagði Katrín Jakobsdóttir:

„Hátíðisdagar nýtast til að leggja til hliðar daglegt þras, endurmeta gildi okkar, minnast góðs og líta til framtíðar. Jón Sigurðsson hefði verið stoltur að sjá hvernig þessi sjálfstæða þjóð hefur staðið sig í hremmingum faraldursins. Hann hefði verið stoltur að sjá Ísland árið 2020. Frjálslynt lýðræðisríki, með öflugar mennta- og rannsóknastofnanir, sterka samfélagslega innviði, fjölbreyttan atvinnurekstur, framsækna frumkvöðla í ólíkum geirum og ekki síst samfélag þar sem fólk er í öndvegi. Samfélag sem reglulega vekur jákvæða athygli umheimsins. Fjölbreytt samfélag þar sem fólkið sem hingað flyst frá öðrum heimshornum hefur gert samfélagið fjölbreyttara og auðugra. En Jón hefði líka hvatt okkur til að halda áfram og gera betur, tryggja öllum jöfn tækifæri og þora að taka djarfar ákvarðanir.“