Straumar útlendingamála
Það er furðulegt að látið sé hér eins og íslenskir stjórnmálamenn og kjósendur hafi getað verið ósnortnir af þessum evrópsku meginstraumum um miðjan síðasta áratug.
Viðurkennt er í Evrópulöndum og Bandaríkjunum að vitlaus skref voru stigin í útlendingamálum fyrir um það bil áratug. Upplausnin í arabaheiminum varð til þess að allar gáttir opnuðust í Evrópu. Angela Merkel Þýskalandskanslari tók forystu með þeirri einföldu yfirlýsingu að þetta myndi reddast. Það gerðist ekki.
Í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi fá stjórnmálaflokkar með hörðustu útlendingastefnuna mikið og vaxandi fylgi.
Hér sækist utanríkisráuneytið eftir að fá áritunarmál vegabréfa alfarið í sínar hendur til að stórfjölga þeim sem koma inn á Schengen-svæðið.
Á íslenskan flokkakvarða mætti líta á þessa flokka sem samsteypu Flokks fólksins og Miðflokksins. Hér hefur slíkur flokkasamruni ekki orðið vegna þess að stofnendur flokkanna sitja enn við stjórnvölinn og vilja hafa tögl og hagldir.
Saga flokka eins og AfD í Þýskalandi, Þjóðarhreyfingar Le Pen í Frakklandi og Reform, umbótaflokks Nigel Farage í Bretlandi, einkennist af hörðum deilum um manninn á toppnum.
Í Frakklandi varð það að fjölskyldudrama þegar Marine Le Pen rak föður sinn, Jean-Marie Le Pen, úr flokknum árið 2015, eftir langvarandi átök, einkum vegna umdeildra ummæla hans um helförina. Hann stofnaði síðan samtökin Cercle des Patriotes Français (2016), samtök föðurlandsvina sjálfum sér til stuðnings.
Marion Maréchal (áður Marion Maréchal-Le Pen), systurdóttir Marine Le Pen, var kjörin á franska þingið árið 2012 fyrir Þjóðfylkinguna, síðar Þjóðarhreyfinguna. Hún hefur síðan stofnað eigið stjórnmálaafl og starfar nú innan Reconquête!, hreyfingar Éric Zemmour. Heiti hreyfingarinnar lýsir stefnu hennar um að endurheimta Frakkland. Það er vísan til Reconquista á Spáni, endurheimt kristinna ríkja frá múslimum á miðöldum.
Allir evrópsku flokkarnir þrír sem hér hafa verið nefndir njóta velvildar forystumanna í stjórnmálahreyfingu Donalds Trumps og JD Vance í Bandaríkjunum fyrir utan að fjandvinur þeirra tveggja, auðmaðurinn Elon Musk, hefur haft bein afskipti af forystu- og stefnumálum AfD og Reform. Mælist sambandið við bandaríska áhrifamenn misjafnlega vel fyrir opinberlega í flokkunum. Þeir leggja áherslu á sjálfstæð þjóðernissinnuð sjónarmið út á við en samfélagsleg viðhorf inn á við.
Það er furðulegt að látið sé hér eins og íslenskir stjórnmálamenn og kjósendur hafi getað verið ósnortnir af þessum evrópsku meginstraumum um miðjan síðasta áratug þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá í Framsóknarflokki, var forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og talaði fyrir víðtækri sátt í útlendingamálum í anda Merkel.
Fljótt varð ljóst að í Danmörku vildu stjórnmálamenn gjalda varhug við sveigjanlegri og opinni útlendingastefnu. Ábendingar um að fara að fordæmi Dana nutu einskis stuðnings hér.
Í ljósi sögunnar er mjög ólíklegt að þeir flokkar sem nú sitja hér í stjórn geri annað í útlendingamálum en að framkvæma það sem hrundið var af stað á lokamánuðum ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar í mikilli óþökk þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar. Flokkur fólksins er aðeins til uppfyllingar hjá þeim sem vilja starfa með honum.