Skortsstefnan og verðbólgan
Þarna þrýstir framkvæmdastjórinn á mjög auman blett í stjórnarsamstarfinu undir forsæti samfylkingarkonunnar Kristrúnar Frostadóttur því að fastheldni í þetta neitunarvald um fjölgun lóða er meginstoð skortsstefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum.
Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags ehf., segir í grein í Morgunblaðinu í dag (28. ágúst) að skipulagslög frá 2011 og svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu frá 2015 hafi verið reist á spám um hæga fólksfjölgun og hægfara uppbyggingu. Forsendur hafi hins vegar breyst þegar Íslendingum fjölgaði miklu hraðar en búist var við. Skipulagið skapi nú húsnæðisskort.
Í gildi er neitunarvald sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu um stækkun vaxtarmarka og segir Sigurður það hafa leitt til skorts á lóðum. Lóðaverð hafi margfaldast, fasteignir hafi orðið dýrari vegna kerfislægs skorts á íbúðum. Mætti líkja því við framleiðslukvóta sem héldi aftur af framboði.
Sigurður segir að núverandi kerfi þjóni ekki hagsmunum almennings heldur geti það hvatt sveitarfélög með lóðir til að beita neitunarvaldi í þágu eigin fjárhagslegra hagsmuna á kostnað heildarþarfarinnar. Hvert sveitarfélaganna geti takmarkað framboð lóða hjá hinum sveitarfélögunum sex. Skipulag sem átti að efla samgöngur á tíma hafi orðið að skipulagi skorts á tímum mikillar fólksfjölgunar. Hvetur Sigurður til þess að lögum um þetta efni verði breytt.
Þarna þrýstir framkvæmdastjórinn á mjög auman blett í stjórnarsamstarfinu undir forsæti samfylkingarkonunnar Kristrúnar Frostadóttur því að fastheldni í þetta neitunarvald um fjölgun lóða er meginstoð skortsstefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum.
Þau greindi á um það Kristrúnu og Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra hver væri helsta undirrót verðbólgunnar. Fram eftir sumri taldi Kristrún að rekja mætti bólguna til hækkunar á matvælum. Nú hallast hún hins vegar á sveif með Daða Má sem segir að hækkun á húsnæðisverði valdi helst verðbólgu. Það verði ekki unnt að stöðva hækkun hennar nema með því að skera upp húsnæðiskerfið. Þessi orð boða atlögu að skortsstefnu Samfylkingarinnar í Reykjavik.
Borgarfulltrúi Viðreisnar vann með Samfylkingunni og Degi B. Eggertssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, að gerð og framkvæmd húsnæðisstefnunnar og þéttingu byggðar. Nú er borgarfulltrúi Viðreisnar hins vegar í minnihluta og því er auðveldara en ella fyrir flokksbróðurinn í fjármálaráðuneytinu að kippa löppunum undan skortskerfinu. Hefur hann stuðning til þess?
Afleiðingum skortsstefnunnar er lýst á þennan hátt í upphafi fréttar í Morgunblaðinu í dag:
„Gatnagerðargjöld á 100 fm íbúð tvöfaldast og hækka um 1,7 milljónir kr. um mánaðamótin, úr 1,9 í 3,6 milljónir, eða um 89%. Til viðbótar við þessa hækkun innheimtir Reykjavíkurborg sex milljónir í innviðagjald af hverri 100 fm íbúð sem byggð er á þéttingarreitum. Gjöld borgarinnar eru því 10 milljónir á hverja íbúð.“
Tveir stjórnarflokkar, Samfylkingin og Flokkur fólksins, flokkur Ingu Sæland húsnæðisráðherra, standa að þessari tvöföldun gatnagerðargjalda í Reykjavík frá og með mánudeginum 1. september. Hvað segir fjármálaráðherrann um hana í verðbólgustríðinu?
Samfylkingin er orðin stjórnlaus undir forsæti Kristrúnar og Inga Sæland samþykkir allar opinberar hækkanir. Í Kastljósi í vikunni sagði Daði Már hins vegar að verðbólgusleggjan væri í sínum höndum. Beitir hann henni gegn húsnæðisstefnu Samfylkingar og Flokks fólksins?