17.8.2025 10:15

Sérregla fyrir 200 mílurnar

Áhugaleysi ESB-aðildarsinna á raunverulegri sérreglu fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum stafar af því að henni yrði strax hafnað, aðlögunarviðræður við ESB yrðu tilgangslausar. 

Af viðbrögðum ESB-aðildarsinna verður ráðið að Ágúst Ólafur Ágústsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, sé mikilvægur talsmaður þeirra fyrir aðild að ESB og hann þyki marktækur málsvari fyrir hópinn. Í grein á Vísi föstudaginn 15. ágúst segir hann:

„Samkvæmt reglum ESB fá eingöngu þjóðir með nýlega veiðireynslu að veiða fisk í lögsögu aðildarríkja. Eingöngu Íslendingar hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu og því sætu íslensk skip áfram ein að íslenskum miðum eftir aðild. Aðildarríki ráða sömuleiðis sjálf hvernig þau útdeila kvótanum sínum. ESB-aðild er því engin ógn við sjávarútveginn.“

Hann nefnir engar heimildir fyrir þessari skoðun sinni. Hitt er þó verra að hún er reist á því að Ísland gerist aðili að ESB án sérreglu, án þess að tryggja sér raunverulega varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB. Slík regla tryggir að Ísland sé óbundið af reglum ESB um aflamark og kvótaskiptingu á hafsvæðum ESB, að 6 mílum aðildarlandanna.

Áhugaleysi ESB-aðildarsinna á raunverulegri sérreglu fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum stafar af því að henni yrði strax hafnað, aðlögunarviðræður við ESB yrðu tilgangslausar. Ef sérreglan er gerð að lykilskilyrði verður þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður fyrir árslok 2027 tilgangslaus. Ríkisstjórnin verður að gera samningsmarkmið sín í þessum efnum skýr áður en lengra er haldið. Er það loðmulla Ágústs Ólafs sem ræður ferðinni eða krafa um sérreglu?

Mynd8.2-Efnahagslogs-landhelgi

Í kröfu um sérreglu fælist:

1.

  • Ísland fái raunverulega, varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB og regla um þetta sé fest í aðildarskilmálunum sjálfum sem ófrávíkjanlegt skilyrði.

  • Aðildarskilmálar eru hluti af grundvallarlögum ESB og standa ofar reglugerðum og tilskipunum.

2.

  • Leiðtogaráð ESB (forsætisráðherrar/ríkisstjórar allra ESB-landa) samþykki regluna. Hún verði borin undir þjóðþing allra ESB-landa.

3.

  • Texti sérreglunnar sé skýr og afdráttarlaus svo Evrópudómstóllinn geti ekki túlkað hann á þann hátt sem minnki verndina fyrir Ísland.

  • Óljós eða opinn texti gæti veikt undanþáguna með tímanum.

4.

  • Reglan falli aðeins á brott með breytingu á sáttmála ESB.

  • Brottfall krefst einróma samþykkis allra ESB-landa.

Sérreglan veitir Íslendingum full yfirráð yfir veiðum innan eigin efnahagslögsögu. Að ná þessu fram er pólitískt erfitt og fordæmalaust eftir 1993.

Það verður að liggja skýrt fyrir hvort ríkisstjórnin ætli að setja sér það markmið að verja efnahagslöguna eða framselja yfirráðin til Brusselmanna.