7.8.2025 8:56

Seglin þenjast í ESB-umræðum

Fyrri þátt þessa máls er mjög tímabært að ræða. Hann er í höndum íslenskra stjórnvalda núna. Þau hafa ákveðið að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn. 

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar, undir forystu Viðreisnar, um að setja ESB-málið á dagskrá kallar á tvíþættar umræður um (1) hvernig staðið verður að ákvörðunum um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu og (2) hvað það þýðir að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og síðan inn í sambandið.

Í Morgunblaðinu í gær (6. ágúst) birtust tvær athyglisverðar greinar um seinni liðinn eftir Jens Garðar Helgason, varaformann Sjálfstæðisflokksins, annars vegar og Sigurð Kára Kristjánsson hæstaréttarlögmann hins vegar.

Jens Garðar segir að það sé ekkert sem heiti að „kíkja í pakkann“ hjá ESB. Viðræður við fulltrúa þess snúist um aðlögun að öllu regluverki sambandsins. Það beri að vara við stjórnmálamönnum sem ætli að hræða þjóð sína til að afsala sér fullveldi þjóðarinnar vegna þess að nú séu „fordæmalausir tímar“. Í ljósi sögunnar standist slíkar fullyrðingar ekki. „Við sem trúum, að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan sambandsins hræðumst ekki umræðuna um hvað sé best fyrir Ísland,“ eru lokaorð Jens Garðars.

Sigurður Kári færir skýr rök fyrir því að það sé ekkert sem bendi til þess að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan ESB en utan sambandsins. Þvert á móti. Út frá hagsmunum Íslands sé augljóst að við þyrftum að gefa meira eftir og borga meira til sambandsins en við fengjum út úr því. Það hljóti a.m.k. allir að sjá að þjóð sem býr við bestu lífskjör í veröldinni fái enga og þurfi enga fyrirgreiðslu frá ESB til framtíðaruppbyggingar.

Þeir Jens Garðar og Sigurður Kári leggja spilin á borðið og færa sterk rök fyrir máli sínu. Taki stuðningsmenn ESB-aðildar til máls um kosti aðildar boða þeir einkum ágæti þess að evran komi í stað krónunnar og kostnaður við að koma sér þaki yfir höfuðið lækki. Þetta eru óljósir framtíðardraumar. Evruaðild yrði ekki í sjónamáli fyrr en undir miðja öld. Til eru miklu einfaldari og skilvirkari leiðir til að lækka húsnæðiskostnað.

Istockphoto-1277965612-612x612

Fyrri þátt þessa máls er mjög tímabært að ræða. Hann er í höndum íslenskra stjórnvalda núna. Þau hafa ákveðið að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn fyrir árslok 2027. Þau hafa einnig samþykkt að lúta forsjá stækkunardeildar ESB í því efni enda verður það verkefni hennar að leggja til við leiðtogaráð ESB að aðlögunarviðræður verði teknar upp við íslensk stjórnvöld samþykki þjóðin tillögu um það.

Alþingi verður að samþykkja ályktun þar sem formlega er ákveðið að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Í ályktuninni verður að kynna spurninguna í atkvæðagreiðslunni svo að unnt sé að ræða hana á þingi.

Verði þessi ályktun samþykkt þarf að setja lög um hvernig þjóðaratkvæðagreiðslunni skuli háttað. Þar eru ýmsar fyrirmyndir eins og sjá má hjá Feneyjanefndinni, ráðgjafanefnd Evrópuráðsins.

Eitt skilyrðanna er að unnt sé að framkvæma það sem um er spurt. Þessu skilyrði yrði ekki fullnægt nema fyrir lægi vilji meirihluta alþingis um að breyta stjórnarskránni svo að framselja mætti framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald til yfirþjóðlegrar stofnunar.

Þetta eru spennandi tímar og nauðsynlegt að láta hendur standa fram úr ermum.