Rökþrota fjármálaráðherra
Það er ekki ábyrg fjármálastjórn þegar ríkisvaldið sjálft eykur verðbólguþrýsting á sama tíma og heimilin eru hvött til að herða sultarólina.
Í orðaskiptum á alþingi miðvikudaginn 14. janúar benti Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins á að ríkisstjórnin virtist enn neita að horfast í augu við augljósan vanda: forsendur nýsamþykktra fjárlaga væru á skjön við raunveruleikann.
Tölurnar tala sínu máli, sama hversu oft ráðherrar reyna að gera lítið úr áhrifum þeirra.
Verðbólga mælist 4,6% nú í janúar og nýjar spár gera ráð fyrir að hún færist á bilinu 5–5,2% þegar áhrif nýrra vörugjalda koma að fullu fram. Jens Garðar minnti á að greiningardeild Arion banka segði þetta „vægast sagt nöturlegar fréttir fyrir land, þjóð og peningastefnunefnd Seðlabankans“. Hún talaði einnig um „verðbólguhrærigraut í boði hins opinbera“, það er ríkisstjórnarinnar.
Það er ekki ábyrg fjármálastjórn þegar ríkisvaldið sjálft eykur verðbólguþrýsting á sama tíma og heimilin eru hvött til að herða sultarólina.
Atvinnuleysi er komið í 6,5%, það hæsta frá Covid-árunum, á sama tíma og fjárlög eru reist á 1,8% hagvaxtarspá sem gerir ráð fyrir nánast óbreyttu atvinnuleysi.
Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins (mynd: mbl.is).
Jens Garðar spurði fjármálaráðherra hvernig hann ætlaði að bregðast við þessari stöðu. Hvar væri 100 milljarða kr. niðurskurðurinn í ríkisrekstrinum, aðhaldið sem hefði verið boðað í ræðu eftir ræðu á alþingi.
Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra Viðreisnar, vísaði til „100 milljarða aðhalds“ á tímabili fjármálaáætlunar. Við athugun reynist þetta aðhald að stórum hluta vera loforð um framtíðina, ekki raunverulegur niðurskurður gegn augljósum halla árið 2026. Fimmtán milljarða aðhald á ári stendur vart undir útgjaldaaukningu sem nemur yfir 140 milljörðum milli ára, jafnvel þótt hluti hennar sé skýrður með tæknilegum tilfærslum og verðlagsbreytingum.
Öllum er jafnframt ljóst að heimilin búa ekki við tæknilegar skýringar – þau búa við hærri skuldir, verðtryggðar hækkanir og aukna skattheimtu. Þegar greiningaraðilar spá því að halli fjárlaga verði nær 60 milljörðum í stað 28 milljarða blasir við að svigrúm ríkisins er nær fullnýtt. Lögbundinn varasjóður er þegar kominn í lágmark.
Þá stendur eftir grundvallarspurning Jens Garðars sem ráðherrann svaraði ekki með neinum sannfærandi hætti: Hvernig á að fjármagna hallann? Með auknum skuldum? Frekari skattahækkunum? Nýjum gjöldum á atvinnugreinar sem þegar standa höllum fæti?
Allt talið um „hallalaus fjárlög á næsta ári“ dugar ekki þegar forsendur þessa árs eru þegar brostnar. Fjármálastjórn krefst raunsæis, ekki orðfimi. Þar stendur málflutningur stjórnarandstöðunnar á traustari grunni en svör ráðherrans.