20.6.2021 10:31

Prófkjör efla Sjálfstæðisflokkinn

Í NV-kjördæmi birtist sama þróun og hjá Sjálfstæðisflokknum í öðrum kjördæmum, kjörsóknin stóreykst sem er góð vísbending um stöðu flokksins almennt.

Prófkjörum Sjálfstæðisflokksins vegna þingkosninganna 25. september 2021 lauk í gær (19. júní) við val á frambjóðendum Norðvesturkjördæmi. Þegar prófkjör fór fram hjá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu árið 2016 greiddu 1.516 atkvæði en nú 2.289. Gild atkvæði voru 2.232.

Í NV-kjördæmi birtist sama þróun og hjá Sjálfstæðisflokknum í öðrum kjördæmum, kjörsóknin stóreykst sem er góð vísbending um stöðu flokksins almennt. Hann er raunar eini stjórnmálaflokkurinn sem leitar umboðs frá jafnmörgum við skipan framboðslista sinna. Sannar það enn lýðræðislegan styrk flokksins og hve fráleitur áróður gegn honum sem flokki sérhagsmuna er.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hlaut mest fylgi í prófkjörinu, 1.347 atkvæði í fyrsta sætið.

Haraldur Benediktsson, oddviti flokksins á þessu kjörtímabili, hlaut annað sætið. Hann hlaut 1.061 atkvæði, í fyrsta til annars sætis.

Teitur Björn Einarsson hlaut þriðja sæti og 1.190 atkv. í fyrsta til þriðja sætis. Sigríður Elín Sigurðardóttir hlaut fjórða sæti og 879 atkv. í fyrsta til fjórða sætis.

Image00001

Sterk staða Þórdísar Kolbrúnar í kjördæminu og innan Sjálfstæðisflokksins er afdráttarlaus í ljósi úrslitanna. Þrátt fyrir erilsöm og tímafrek ráðherrastörf hefur hún ræktað samband við kjósendur í þessu stóra kjördæmi á þann veg sem glæsileg kosning hennar sýnir.

Haraldur Benediktsson hefur áorkað miklu sem alþingismaður og áður sem formaður Bændasamtaka Íslands. Fyrir þá sem vinna að mótun landbúnaðarstefna í hans anda yrði skarð fyrir skildi sæti Haraldur ekki á listanum og á alþingi að kosningum loknum.

Á ruv.is er vitnað til orða sem Haraldur lét falla við fréttastofuna eftir að úrslit lágu fyrir aðfaranótt 20. júní. Hann áréttaði það sem hann sagði á sínum tíma að ekki gæti verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu. Lagt var út af orðum Haraldar á ómaklegan hátt í hita kosningabaráttunnar. Á ruv.is segist hann ætla að skoða úrslitin og ræða við Þórdísi Kolbrúnu.

Samtal þeirra skilar vonandi fjórum efstu sætunum eins og þau eru nú. Allar breytingar á ákvörðunum sem teknar eru í prófkjöri geta leitt til vandræða og leiðinda.

Kjördæmi landsins eru sex. Prófkjör sjálfstæðismanna hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að í þremur þeirra verða konur í efsta sæti: Þórdís Kolbrún, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir. Karlar skipa efstu sæti í þremur kjördæmum: Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Njáll Trausti Friðbertsson. Jafnara getur það ekki verið.