13.5.2022 10:08

Píratinn vill borgarstjórastólinn

Spekingar Kjarnans segja nú að Píratar muni fleyta sama meirihluta áfram í Reykjavík að loknum kosningum.

Uppi varð fótur og fit nú á dögunum þegar Fréttablaðið birti á forsíðu skoðanakönnun sem syndi Samfylkinguna stærsta, Pírata næst stærsta og Sjálfstæðisflokkinn í þriðja sæti í borginni með 16% fylgi. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði óralanga fréttaskýringu undir fyrirsögninni: Pólitískur jarðskjálfti skekur Ísland.

Í dag (13. maí) segir Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, í leiðara að flest bendi til að könnunin „hafi verið lítið marktæk“. Hún hafi þó þótt „fín frétt í tíðindaleysi“, auk þess sem „margt ofstækisfullt fólk“ sæi „þarna draum sinn um fall Sjálfstæðisflokksins rætast“. Kolbrún á sér að sjálfsögðu ekki þann draum þótt hún falli fyrir persónutöfrum Dags B. Eggertssonar.

Til marks um hve innantómur boðskapur borgarstjórans er má vitna í grein sem hann skrifar í dag á leiðarasíðu Kolbrúnar en þar segir Dagur B.:

„Á næsta kjörtímabili mun Borgarlínan komast til framkvæmda og Miklabraut fer í stokk – ef núverandi stefna heldur áfram.“

Hver trúir þessu? Vegagerðin telur greinilega óframkvæmanlegt að setja Miklubrautina í stokk og hugar nú að gerð ganga undir hana frá Grensásvegi í vestur. Stokkurinn hefur verið á kosningastefnuskrá Dags B. frá 2006.

Borgarlínan? Hvað stendur orðið fyrir í raun? Helga Vala Helgadóttir, flokkssystir Dags B. og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsir því með þessum orðum i Morgunblaðinu í dag:

„Fyrst aðrar þjóðir geta lært að nýta almenningssamgöngur daglega þá getum við það. Það er framtíðin.“

Þetta er gamalkunni boðskapurinn um „nýja manninn“. Til dæmis er sagt að Svisslendingar búi við góðar almenningssamgöngur og nýti þær. Við eigum að verða eins og þeir.

Sviss með öll sín Alpafjöll er ekki nema 41,285 km² að stærð, meira en helmingi minna land en Ísland með 8.6 milljónir íbúa. Eigum við ekki frekar að bera okkur saman við stór dreifbýl lönd í Norður-Ameríku?

229368_125370145Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, í Dagmálum Morgunblaðsins.

Spekingar Kjarnans segja nú að Píratar muni fleyta sama meirihluta áfram í Reykjavík að loknum kosningum. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, segist í samtali við Morgunblaðið í dag ekki „treysta“ sér „til að taka afstöðu til þess hvort hún muni gera tilkall til borgarstjórastólsins [að loknum kosningum] en segist þó vilja verða borgarstjóri“.

Píratar séu „bæði frjálslyndari og grænni“ en Samfylkingin. Henni hugnist ekki samstarfssamningur Reykjavíkurborgar við Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu til að uppræta vændi og kynlífsvinnu á hótelum. Hann falli ekki að „skaðaminnkunarhugsjón“ Pírata í Reykjavík. „Hvað gerist hjá þeim sem eru að stunda vændi á hótelum? Færist það þá ekki bara á einhvern stað þar sem þú sérð ekki til?“ spyr Dóra Björt.

Þessi ágreiningur innan borgarstjórnarmeirihlutans sýnir að með líflegri blaðamennsku hefði mátt fá fínar fréttir í tíðindaleysinu. Ágreiningur innan meirihlutans á þó ekki upp á pallborðið, marklitlar skoðanakannanir þykja meira spennandi. Í skjóli þeirra má „pönkast“ á Sjálfstæðisflokknum.