20.7.2020 9:45

Óttinn við fjármálaeftirlitið

Öfgafullum andstæðingum Icelandair verður tíðrætt um „afleik“ Icelandair. Hann leiddi þó til niðurstöðu og lausnar sem er eitur í beinum aðgerðarsinnanna.

Forystumenn Samfylkingar og Pírata vildu gera kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) að flokkspólitísku máli. Þess var krafist að ríkisvaldið beitti Icelandair fjárhagslegum þvingunum til að verða að kröfum FFÍ.

Jaðarsettir stjórnendur ASÍ, Eflingar-stéttarfélags, VR og verkalýðsfélagsins á Akranesi fóru hamförum og hótuðu í nafni lífeyrissjóðanna að gengið yrði að Icelandair dauðu. Að baki boðskap þeirra ómaði hatursáróður sjálfskipaðs hugmyndafræðings sósíalista, Gunnars Smára Egilssonar.

Sósíalistinn Sólveig Anna Jónsdóttir varð sér mest til skammar með ummælum sínum um Láru V. Júlíusdóttur lögfræðing. Sannaðist þar enn að Sólveig Anna þolir ekki að með skýrum rökum sé brugðist við öfgum hennar.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar-stéttarfélags, er hægri hönd Sólveigar Önnu. Á sínum tíma samdi Viðar lögin fyrir Sósíalistaflokkinn þegar Gunnar Smári fékk þá hugmynd að skapa sér stöðu enn á ný sem valdamaður í krafti fjármuna annarra og róa á mið verkalýðsfélaganna.

Lifeyrissjodir_021019_2.width-720Mynd af vefsíðunni kjarninn.is

Þegar vakið var máls á því laugardaginn 18. júlí að fjármálaeftirlitið ætti að hafa auga með beitingu lífeyrissjóðanna, settist Viðar Þorsteinsson við tölvuna og skrifaði á Facebook:

„Verkfallsaðgerðir og dómsmál í Félagsdómi munu skýrast en vísar afleiðingar af þessum afleik nú þegar eru þær að IcelandAir er ekki aðeins óvinsælasta fyrirtæki á landinu heldur einnig það óálitlegasta fyrir innlenda fjárfesta, sérstaklega þá sem bundnir eru einhvers konar samfélagsábyrgð. Sem er óheppileg staða því fyrirtækið var á biðilsbuxum gagnvart fjárfestingu frá eftirlaunasjóðum verkafólks.

Framkvæmdastjórinn [Halldór Benjamín Þorbergsson hjá SA] virðist nú mjög upptekinn af því að hylma yfir sóðaskapinn og mistökin, og kallar til Fjármálaeftirlitið í von um að það þaggi niður í félagslega kjörnum leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar og málefnalegri gagnrýni þeirra.

Fróðlegt verður að sjá hvernig honum muni ganga í þeirri ritskoðunarherferð, en fer ekki að verða spurning um að menn líti sér nær?“

Þetta níð um Icelandair er greinilega skrifað áður en Icelandair og FFÍ gerðu kjarasamning sinn. Viðar gengur að því sem vísu að Icelandair verði stefnt fyrir Félagsdóm og þykir ekkert sjálfsagðara. Hann umturnast hins vegar þegar vikið er að því að fjármálaeftirlitið sinni skyldum sínum gagnvart verkalýðsrekendum og sama gerir Vilhjálmur Birgisson á Facebook-síðu sinni.

Öfgafullum andstæðingum Icelandair verður tíðrætt um „afleik“ Icelandair. Hann leiddi þó til niðurstöðu og lausnar sem er eitur í beinum aðgerðarsinnanna.

Hlálegt er að þessir menn telji sig sýna „samfélagsábyrgð“ með framgöngu sinni. Jaðarsettu verkalýðsrekendurnir sem vildu níðast á Icelandair með fé lífeyrissjóðseigenda hljóta að sæta rannsókn fjármálaeftirlitsins.