15.8.2025 11:56

Örlög Úkraínu í húfi

Fundurinn í Alaska verður kannski aðeins fjölmiðlasýning tveggja karla á áttræðisaldri sem vilja minna heiminn á að þeir séu enn karlar í krapinu?

Í dag (15. ágúst) hittast þeir á fundi í Alaska, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútin Rússlandsforseti.

Trump lítur á sig sem hágæðasamningamann, brjóstvit sitt og áræði sé engu líkt og vegna snilli sinnar í þágu friðar eigi honum að hlotnast friðarverðlaun Nóbels.

Pútin er að eigin mati ofursnjall við að setja skýr markmið og móta strategíu til að ná þeim með góðu eða illu. Tímaskyn sitt sé frábært og hann viti nákvæmlega hvenær og hvernig eigi að slá viðmælanda sinn út af laginu.

25006358-pro-ukrainske-demonstranter-forud-for-donald-trumpVíða um Alaska kemur fólk saman til stuðnings Úkraínu.

Báðir glíma þeir við vaxandi vandamál á heimavelli. Rússneska hagkerfið snýst nú orðið aðeins um að halda stríðsvélinni gangandi og án stuðnings Kínverja væri hún að þrotum komin. Viðvörunarljós blikka í bandarískum hagspám og Trump tekst ekki að slökkva á þeim með því að reka hagstofustjórann vegna talna um aukið atvinnuleysi eða seðlabankastjórann vegna hárra vaxta.

Fundurinn í Alaska verður kannski aðeins fjölmiðlasýning tveggja karla á áttræðisaldri sem vilja minna heiminn á að þeir séu enn karlar í krapinu?

Hernaðarbloggarar í Rússlandi liggja ekki á skoðunum sínum. Þeir segja að fundurinn leiði ekki til friðar í Úkraínu og ekki heldur til vopnahlés þrátt fyrir þrýsting frá Trump.

Bloggararnir vona hins vegar að Pútin takist að rjúfa efnahagslega einangrun Rússlands. Bent er á að allt í einu hafi Kirill Dmitrijev, stjórnarformaður rússneska ríkisfjárfestingasjóðsins, RDIF, verið munstarður í rússnesku viðræðunefndina.

Donald Trump virti Zelenskíj Úkraínuforseta vart viðlits fyrr en hann taldi sig hafa tryggt hlutdeild Bandaríkjamanna í náttúruauðæfum Úkraínu – þau eru beggja vegna víglínunnar í landinu.

Fiona Hill var á sínum tíma ráðgjafi Trumps um rússnesk málefni. Hún segir nú að Pútin vilji koma á góðum samskiptum við Trump, hann vilji jafnframt uppgjöf Úkraínumanna.

Steve Rosenberg, gamalreyndur fréttaritari BBC í Moskvu, ræddi við Hill sem segir Pútin enn ætla að eyðileggja Úkraínu og þurrka landið út af kortinu sem sjálfstætt, fullvalda ríki:

Úkraína fari aldrei í NATO.

Her Úkraínu verði aflvana.

Vinur Rússlands taki völdin í Kyiv.

Stríðið haldi áfram þar til þessum markmiðum verði náð, Pútin semji ekki um annað.

Þarna er því lýst svart á hvítu sem fyrir Pútin vakir. Hver eru markmið Trumps? „MIKIÐ Í HÚFI“ setti hann á síðu sína þegar hann settist í flugvélina á leið til Alaska. Hugsaði hann meira um sjálfan sig en örlög Úkraínu?