30.9.2017 13:42

Opinbera rýmið er fyrir alla aldurshópa

Nýlega var sú athugasemd gerð við skrif mín á Facebook að ég ætti að huga að öðru tómstundagamni „fyrir gamalmenni“ – ég hefði notað minn kvóta af opinbera rýminu.

Nú eru um hálf öld frá því að ég hóf að skrifa reglulega um stjórnmál og þó einkum erlend málefni á opinberum vettvangi. Þá eru rúm 22 ár frá því að ég opnaði þessa vefsíðu til að vera örugglega sjálfs míns herra við miðlun  upplýsinga og skoðana minna. Fyrir nokkrum árum gerðist ég félagi um tveggja milljarða manna á samfélagsmiðlinum Facebook og hef sett þar inn efni og notað hann til að koma á framfæri ýmsum athugasemdum, ég forðast ómálefnalega áreitni enda segir hún aðeins mest um þann sem stundar hana. Hafi ég orðið fyrir of miklu áreiti að eigin mati á Facebook hef ég einfaldlega nýtt mér þann kost sem þar er í boði til að útiloka viðkomandi, loka fyrir allt efni frá honum.

Nýlega var sagt frá samningi ríkisútvarpsins við einstakling sem taldi fréttastofu þess hafa gengið of nærri æru sinni. Af því tilefni setti ég inn á Facebook-hópsíðuna Fjölmiðlanördar þessa athugasemd:

„Formaður blaðamannafélagsins segir að mannréttindadómstóllinn í Strassborg hafi sett ofan í við íslenska dómstóla vegna þess hve hart þeir hafi tekið á fjölmiðlum í meiðyrðamálum. Að þetta sé skýring á að ríkisútvarpið greiði 2,5 m. kr. til að þurfa ekki að biðjast afsökunar vegna frétta er ekki trúverðugt. Betri skýringa er þörf.“

Skömmu eftir að þetta birtist gerði mér ókunnug kona Pálína Helga Þórarinsdóttir þessa athugasemd: Björn þarf að læra hobbý fyrir gamalmenni.

Björn Bjarnason: Pálína Helga Þórarinsdóttir, þakka þér umhyggjuna og málefnaleg viðbrögð, er þetta hobby ekki eins gott og hvert annað? Er það bara fyrir ákveðinn aldursflokk?

Pálína Helga Þórarinsdóttir: Sæll Björn, ég var alveg meðvituð um að innlegg mitt var niðrandi þegar ég setti það inn.

Mín skoðun er sú að þú hafir fengið góðan tíma og svigrúm á opinbera sviðinu til að tjá skoðanir þínar og nú sé mál að færa þær inn á einkasviðið og gefa öðrum orðið.

Björn Bjarnason: Er opinbera sviðið aðeins fyrir ákveðna aldurshópa? Ný tegund ritskoðunar? Eða má ég ekki fjalla um ríkisútvarpið? Hvaða aldurshópur á að ráða opinbera sviðinu? Í mínum huga er skoðun þín aðeins til marks um nauðsyn þess að herða sóknina í anda frjálslynds lýðræðis, ég þarf sem betur fer ekki leyfi þitt til þess.

Pálína Helga Þórarinsdóttir: Einmitt, þú vilt ekki skilja, ég skil það. Hefur ekkert með lífaldur að gera.

Ég birti þetta hér til að sýna við hverju menn geta búist í opinberum umræðum á líðandi stundu. Ef „hobbý fyrir gamalmenni“ hefur ekkert með lífaldur að gera segir það aðeins að Pálína Helga Þórarinsdóttir tapaði einhvers staðar þræðinum í gagnrýni sinni sem snýst að sjálfsögðu um að þeir sem náð hafa ákveðnum aldri eigi ekki að láta í sér heyra.

„Opinbera rýmið“ sem Pálína Helga Þórarinsdóttir nefnir er sem betur fer opið fyrir alla aldurshópa. Aðrar reglur gilda þar en á vinnumarkaði þar sem menn víkja nái þeir ákveðnum aldri. Síðan bætist það við núna að eftirlaunafólk skirrist við að nýta krafta sína í launuðu starfi af því að opinberar reglur letja það til þess. Sem betur fer hafa engar slíkar reglur verið settar um „opinbera rýmið“, það er sjálft mál- og skoðanafrelsið.