Nýjar aðferðir í umræðum
Í raun er álíka einkennilegt að vilja banna erlendum manni að lýsa skoðun sinni og kynna eigin bók hér á landi og nota norsk rök í þágu norsks minnihlutahóps í baráttu um íslensk orkumál.
Tvær greinar birtust eftir mig í Morgunblaðinu í vikunni, önnur snerist um meginstoðir íslenskrar utanríkisstefnu, aðilidina að EES og aðildina að NATO, hana má lesa hér . Hin var umsögn um bókina Dauða Evrópu eftir Douglas Murray, í þýðingu Jóns Magnússonar, og má lesa hana hér.
Í umsögninni vík ég að tilraun Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra stéttarfélagsins Eflingar, til að fá forstjóra Hörpu til að banna fund með Douglas Murray í Kaldalóni Hörpu.
Afstaðan sem birtist í tilrauninni til að banna fund í Hörpu af því að kvartandinn er ósammála skoðunum ræðumanns á fundinum er forkastanleg. Þetta er þó ekki einsdæmi því að þessi aðferð er stunduð í háskólum austan hafs og vestan. Skólastjórnendur láta undan kröfum háværra nemenda sem segja ró sinni raskað sé von á einhverjum þangað sem þeir eru ósammála.
Að það sé látið gott heita að unnt sé að stýra skoðanamyndun á þennan hátt er aðför að frjálslyndum, lýðræðislegum stjórnarháttum sem eru eitur í beinum manna á borð við Vladimir Pútin Rússlandsforseta sem boðaði dauða grunngilda lýðræðisins í viðtali við The Financial Times föstudaginn 28. júní.
Í grein minni um meginstoðir utanríkisstefnunnar vék ég að þeirri staðreynd að norsku samtökin Nei til EU boðuðu strax 24. mars eftir að þau höfðu tapað atkvæðagreiðslu í norska stórþinginu að þau mundu reyna að hnekkja framgangi þriðja orkupakkans sem EES-máls með því að berjast gegn honum á Íslandi.
Myndin birtist á vefsíðu Nei til EU í mars 2019 þegar pólitískur ráðgjafi samtakanna, Morten Harper, flutti hér fyrirlestur og hitti félagana í Frjálsu landi, Sigurbjörn Svavarsson, framkvæmdastjóra og formann, og Friðrik Danielsson.
Til þessarar ákvörðunar má rekja að orkupakkamálið varð allt í einu að pólitísku stórmáli á Íslandi.
Miðflokkurinn og samtökin Orkan okkar kynna stefnu Nei til EU í málinu hér, rökin sem notuð eru bera greinilegt norskt svipmót og hugmyndafræðingar Nei til EU hafa komið hingað til funda með samherjum sínum og flutt opinbera fyrirlestra. Bændablaðið er málgagn þessara sjónarmiða og þeirra gætir einnig í Morgunblaðinu.
Í raun er álíka einkennilegt að vilja banna erlendum manni að lýsa skoðun sinni og kynna eigin bók hér á landi og nota norsk rök í þágu norsks minnihlutahóps í baráttu um íslensk orkumál. Hvoru tveggja er þó lifandi veruleiki í samtímanum og um hann verður að ræða.
Nei til EU vilja að Norðmenn segi sig úr EES. Samtökin Heimssýn hafa ekki þá stefnu en hér lítið félag, Frjálst land, sem berst gegn EES-aðildinni. Félagið telur mig vanhæfan til formennsku í starfshópi um kosti og galla EES-samstarfsins og nýjasta sönnun þess fyrir því er að í grein minni um meginstoðir utanríkisstefnunnar er þessi setning: „Sé aðild að EES hafnað yrði annaðhvort horfið aftur til fortíðar og tvíhliða viðskiptasamninga eða að nýju stefnt að ESB-aðild.“
Ef til vill lúrir Frjálst land á einhverri leynileið fyrir okkur Íslendinga ef við hverfum frá EES-samstarfinu. Nei til EU vill tvíhliða viðskiptasamning eins og Norðmenn gerðu 1973.