Stuðningur við meginstoðir utanríkismála
Morgunblaðið 28. júní 2019
Drjúgur meirihluti landsmanna telur hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (73,6%) og alþjóðlegum viðskiptum (78,3%). Norrænt samstarf á sérstakan stað í hugum landsmanna en 92% eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í Norðurlandasamstarfi. Þátttaka Íslands í störfum Sameinuðu þjóðanna (77,9%) og mannréttindaráðsins (80,8%) nýtur einnig fylgis meðal landsmanna sem telja jafnframt að seta Íslands í mannréttindaráðinu geti haft jákvæð áhrif á þróun mannréttinda á heimsvísu (70,3%).
Þetta kemur fram í könnun sem fyrirtækið Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið undir lok maí og birt var 21. júní. Könnunin er liður í markmiði utanríkisþjónustunnar að bæta upplýsingamiðlun til almennings um störf og stefnu utanríkisþjónustunnar.
EES-samstarfið
Evrópumálin voru skoðuð sérstaklega og er stuðningurinn við EES-samninginn mikill að mati ráðuneytisins. Rúm 55% landsmanna eru jákvæð gagnvart aðild Íslands að EES-samningnum en eingöngu 11,8% eru neikvæð gagnvart henni.
Aðildin að EES hefur verið rædd mikið undanfarin misseri vegna ágreinings um þriðja orkupakkann, það er innleiðingu á nýjum ákvæðum um orkumarkaðinn sem hér varð til með raforkulögunum frá 2003. Þessi innleiðing núna krefst einnar lagabreytingar sem eykur sjálfstæði Orkustofnunar til neytendaverndar á íslenska orkumarkaðnum.
Utanríkisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna með Michel Barnier, brexit-samningamanni ESB,
Norska stórþingið samþykkti innleiðingu þriðja orkupakkans með góðum meirihluta 22. mars 2018 eftir nokkrar deilur og umræður.
Ný skoðanakönnun í Noregi sýnir nú meiri stuðning við aðild að EES en nokkru sinni fyrr eða rúm 60%. Samtökin Nei til EU vilja Noreg úr EES. Þau börðust hart gegn því að stórþingið samþykkti þriðja orkupakkann. Katherine Kleveland, formaður samtakanna, sá eina von eftir atkvæðagreiðsluna þar.
Hún skrifaði baráttukveðju á vefsíðu samtakanna 24. mars 2018 og sagði:
„Kanskje er det likevel vår gode nabo Island som berger oss. Alle vedtak innenfor EØS-avtalen krever at de innføres i både Norge, Island og Liechtenstein.“ Til þess að sameiginleg EES-ákvörðun sé gild verður að innleiða hana í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein. Kleveland sagði að góðir nágrannar á Íslandi kynnu að bjarga Norðmönnum í þessu máli.
Síðan varaði hún norsk yfirvöld við, hvorki Norðmenn né Íslendingar þyldu þrýsting þeirra á „íslensku bræðraþjóðina eða alþingi“.
Í bréfi sem vefsíðan Kjarninn birti 30. maí 2019 segjast Morten Harper, rannsóknar- og fræðslustjóri Nei til EU, og Kathrine Kleveland „uppfull af áhuga“ fylgjast „vel með beina streyminu“ af umræðum á alþingi um þriðja orkupakkann og „það væri frábært ef það tækist að fá ákvörðun í málinu frestað“. Þau segja einnig: „Afstaða og framganga utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, er mjög vafasöm.“ Og spyrja: „Getur verið að málflutningur utanríkisráðherra Íslands endurspegli þrýstinginn frá norsku ríkisstjórninni?“
Kenning samtakanna er að vegna þrýstings gæti íslensk stjórnvöld í raun hagsmuna norskra stjórnvalda en ekki Íslendinga. Þetta eru fordæmalaus afskipti erlendra samtaka af íslenskum stjórnmálum. Samtökin Nei til EU berjast eins og áður sagði gegn aðild Noregs að EES-samstarfinu og vilja hverfa aftur til tvíhliða viðskiptasamninga.
Verulegur stuðningur Íslendinga við EES-samstarfið eftir umræðurnar um þriðja orkupakkann sýnir að EES-samningurinn stendur hér á traustum grunni. Sé aðild að EES hafnað yrði annaðhvort horfið aftur til fortíðar og tvíhliða viðskiptasamninga eða að nýju stefnt að ESB-aðild.
NATO-aðild – varnarsamstarfið
Í könnun Maskínu fyrir utanríkisráðuneytið eru 49% landsmanna jákvæð gagnvart aðildinni að Atlantshafsbandalaginu (NATO) en 18,8% neikvæð og 37,1% er jákvætt gagnvart varnarsamstarfinu við Bandaríkin en 27,9% neikvæð.
Umræðurnar um öryggis- og varnarmál eru nú svipur hjá sjón miðað við það sem var í fjóra áratugi á síðustu öld, frá 1949 til 1989. Þá var deilan um þessi mál þungamiðja á stjórnmálavettvangi í stað sáttarinnar sem nú hefur náðst um þau í þjóðaröryggisstefnunni.
Um heim allan ber varnar- og öryggismál hátt þegar rætt er um ráðstöfun á skattfé almennings og hve stór hluti þess á að renna til hermála. Fyrir öllum ákvörðunum í því efni eru færð rök sem taka mið af þróun alþjóðamála, spennustigi og þjóðarhagsmunum viðkomandi ríkis. Hér eru aldrei slíkar umræður á alþingi, íslenskir skattgreiðendur bera engar byrðar vegna hernaðarútgjalda.
Nokkrar umræður hafa orðið undanfarið vegna frétta um ráðstöfun á fjármunum bandaríska varnarmálaráðuneytisins innan ramma áætlunar sem samin var eftir hernaðarbrölt Rússa gegn Úkraínumönnum árið 2014.
Fyrir réttum þremur árum, 29. júní 2016, skrifuðu Lilja D. Alfreðsdóttir, þáv. utanríkisráðherra, og Robert O. Work, þáv. varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undir sameiginlega yfirlýsingu um varnar- og öryggismál, sem tók mið af þessari áætlun og framkvæmdum hér í samræmi við hana.
Eftir þessu pólitíska umboði hefur verið starfað síðan og það var enn áréttað þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hitti starfsbróður sinn Mike Pompeo í Washington 7. janúar í ár og þegar Pompeo kom hingað til lands 15. febrúar 2019.
Í mars 2019 birti bandaríska varnarmálaráðuneytið skýrslu um hvernig fé yrði ráðstafað innan ramma áætlunarinnar á fjárlagaárinu 2020.
Þá ráðgerir bandaríski flugherinn eftirfarandi framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli: Beddown Site ($7.0 million), Hot Cargo Pad ($18.0 million) og Expanded Parking Apron ($32.0 million).
Í frétt á vef ríkisútvarpsins, ruv.is, var þetta íslenskað á þennan hátt: „Sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn og átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar (Dangerous Cargo PAD).“
Þarna er beddown site íslenskað sem „færanleg aðstaða fyrir herlið“. Rétt lýsing er að þetta er aðstaða sem færanlegt herlið getur notað sé þess talin þörf, svipuð aðstaða og er nú fyrir hendi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í fréttinni verður hot cargo pad að dangerous cargo pad. Innan hersins nota menn orðin hot cargo fyrir skotfæri, sprengjur og önnur hættuleg efni. Vegna hættu sem kann að skapast við meðferð þessa farms er mælt fyrir um sérstakt svæði fyrir vélar með hann. Slíkt svæði er þegar fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli. Annaðhvort á að endurbæta svæðið eða stækka eins og flughlöðin.
Engin áform eru með öðrum orðum um að breyta eðli aðstöðu fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli heldur uppfæra hana og stækka til að hreyfanlegur flugherafli geti haft afnot af henni innan öryggissvæðis vallarins. Ekkert í þessum fjárveitingum til flughersins ber þess merki að ætlunin sé að hér sé „færanleg herstöð“. Það sérkennilega hugtak skaut allt í einu upp kollinum í fréttum. Hingað kann hins vegar að koma „færanlegur herafli“ og njóta betri aðstöðu en nú er fyrir hendi.