Ný ríkisstjórn – RÚV gefur tóninn
Frá fréttastofu RÚV hefur löngum andað köldu í garð Bjarna Benediktssonar og hafa mörg dæmi um það verið tíunduð hér á þessum síðum í áranna rás.
Ný ríkisstjórn sömu flokka og áður var mynduð í gær (9. apríl) undir forsæti Bjarna Benediktssonar sem snemma í morgun tók við lyklunum að forsætisráðuneytinu úr hendi Katrínar Jakobsdóttur forsetaframbjóðanda.
Katrín og Bjarni voru í gærkvöldi í 75 ára afmælisveislu Guðna Ágústssonar, fyrrv. landbúnaðarráðherra, og fluttu góðar og skemmtilegar ræður honum til heiðurs eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem nú verður fjármálaráðherra.
Tveir sólarhringar liðu frá því að Katrín Jakobsdóttir gekk á fund forseta Íslands og afhenti lausnarbeiðni sína sunnudaginn 7. apríl þar til formenn stjórnarflokkanna þriggja kynntu nýja stjórn klukkan 14.00 þriðjudaginn 9. apríl á blaðamannafundi í Hörpu. Tímann notuðu stjórnarandstæðingar til að hrópa að allt væri að fara af hjörunum. Sömu sögu má raunar um álitsgjafana sem láta móðan mása en segja í raun ekki annað en að þeir haldi að þetta eða hitt gerist.
Athygli vakti hve þröngt sjónarhorn ríkisútvarpið (RÚV) valdi við val á fólki til að lýsa framvindunni. Það var langflest andstætt stjórnarsamstarfinu.
Ríkisráðsfundur annars ráðuneytis Bjarna Benediktssonar 9. apríll 2024 (mynd: vefsíða stjórnaráðsins/Eyþór Árnason).
Í Staksteinum Morgunblaðsins í morgun er vakin athygli á að fréttastofa RÚV sá ástæðu til að gera sérstaka frétt sem birtist undir fyrirsögninni „Nær Bjarni að flytja áramótaávarp?“ Þá var sagt: „Bjarni sá eini [forsætisráðherra] sem náði ekki áramótaávarpi“. Þetta var síðan áréttað: „Allir nema einn fluttu áramótaávarp“.
Höfundi Staksteina finnst stórskrýtið að á fréttastofu RÚV þyki það helsti mælikvarðinn á forsætisráðherra hvernig þeir standi sig í dagskrárgerð fyrir RÚV. Sjálfhverfa RÚV sé svo mikil að þar hugsi menn aðeins um eigin dagskrá og telji auk þess að forsætisráðherra geti aðeins notað ríkisútvarpið sem miðil til samtals við þjóðina.
Frá fréttastofu RÚV hefur löngum andað köldu í garð Bjarna Benediktssonar og hafa mörg dæmi um það verið tíunduð hér á þessum síðum í áranna rás. Með frétt um árlegan lið í dagskrá RÚV og að Bjarni hafi aldrei komið fram í honum er ýtt undir þá skoðun að stjórn undir hans forsæti verði ekki langlíf, að nota þann mælikvarða til að koma þeirri skoðun á framfæri sýnir hve langt er seilst.
Einstakir þættir í RÚV eða jafnvel bara umtal um þá er tæki starfsmanna stofnunarinnar til að koma á framfæri eigin skoðunum. Nýtt dæmi er að Gísli Marteinn Baldursson, dagskrárgerðarmaður sjónvarps, ætlar ekki að lýsa evrópskri söngvakeppni sem fer fram í Malmø í Svíþjóð í maí vegna þess að einn þátttakenda er frá Ísrael.
Í siðareglum RÚV segir að starfsfólk RÚV ræki störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. Það forðist að kasta rýrð á RÚV eða skaða ímynd þess og traust með framkomu sinni. Þá nýti starfsfólkið ekki stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra.
Fellur að þessum reglum að starfsmenn lýsi fordómum sínum opinberlega og telji sig þess vegna ófæra um lýsa því sem fram fer á fjölþjóðlegri söngvakeppni? Eru dæmi um að íþróttafréttamenn segi sig frá lýsingu á leik vegna fordóma? Eitt er víst að engin slík dæmi eru þegar ákveðnir stjórnmálamenn koma við sögu.