24.6.2018 21:29

Merkar fornleifarannsóknir á Þingeyrum

Takist að tryggja fé til frekari fornleifarannsókna á Þingeyrum skýra niðurstöður þeirra margt í sögu þessa merka staðar og þar með þjóðarinnar

Fór í dag norður að Þingeyrum þar sem við í stjórn Þingeyraverkefnisins hittum Steinunni J. Kristjánsdóttur fornleifafræðing sem hefur verið þar við rannsóknir með samstarfsfólki sínu frá því upphafi mánaðarins.

Lokavikan er hafin og þess vegna var þetta kjörinn tími til að fræðast um hvað áunnist hefur í sumar fyrir 5 m. kr. styrk úr Fornleifasjóði. Margt hefur skýrst, til dæmis stækkar svæðið sem þarf að rannsaka.

File-11_1529875486875Við rannsóknasvæðið á Þingeyrum 24. júní 2018. Frá vinstri: Steinunn J. Kristjánsdóttir, Rut Ingólfsdótti, Bergur Þorgeirsson og Guðrún Nordal.

Líklegt er að við uppgröftinn í sumar hafi fundist minjar um bæinn sem Lárus Gottrup (1649 – 1. mars 1721) Þingeyraklaustursumboðsmaður frá 1685 og að lokum lögmaður norðan og vestan árið 1695 reisti. Gottrup bjó stórbúi á Þingeyrum, byggði þar upp og reisti meðal annars stórt timburhús, upphitað að hluta og lét leggja vatn að húsinu. Einnig reisti hann stóra timburkirkju á Þingeyrum og gaf henni meðal annars hollenskan prédikunarstól í barokkstíl, skírnarfont og fleiri góða gripi sem enn má sjá í kirkjunni á staðnum.

Síðastliðinn föstudag fundu fornleifafræðingarnir kamb úr bronsi frá klausturtímanum. Hann bendir til að hús Gottrups hafi staðið þar sem klaustrið var áður. Er þetta merkur fundur því að mjög fágætt er að slíkir kambar finnist hér þótt það hafi gerst.

File-12_1529875644878Fágæti munkakamburinn sem fannst föstudaginn 22. júní.

Þingeyraklaustur var starfrækt frá 1133 til 1551 í rúm 400 ár og er ekki vafi á að takist að tryggja fé til frekari fornleifarannsókna á Þingeyrum skýri niðurstöður þeirra margt í sögu þessa merka staðar og þar með þjóðarinnar. Þingeyraverkefnið snýr einnig að ritmenningunni sem dafnaði hjá munkunum, umhverfisþáttum, gróðri og skordýrum. Á sínum tíma varð plága öllum munkunum nema einum að aldurtila. Æskilegt er að sannreyna hvaða plága þetta var og fræðast um hvort svarti dauði hafi leikið munkana svona grátt.

Fyrir norðan var hlýtt og bjart veður en þegar komið var suður yfir Holtavörðuheiði ókum við inn í sunnlensku rigninguna að nýju. Þurrkurinn á Þingeyrum hefur auðveldað fornleifagröftinn í sumar en stundum barst napur norðanvindurinn frá hafísnum sem lónaði fyrir norðan Húnaflóa.