24.9.2014 19:00

Miðvikudagur 24. 09. m14

Í dag ræddi ég við Anítu Margréti Aradóttur í þætti mínum á ÍNN en í ágúst tók hún þátt í Mongol Derby, 1.000 km reiðtúr á sléttum Mongólíu. Samtal okkar má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun, fimmtudag.

Á mánudag vék ég hér að úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem sektaði Mjólkursamsöluna um 370 m. kr. Að orðum mínum er vikið í húskarlahorni Fréttablaðsins við hlið leiðara þess í dag og sagt undanfarin ár hafi ég verið mjög virkur í stjórnmálum. Hafi setið í ríkisstjórn en ekki sé unnt að finna margt í ræðum mínum eða ritum frá þeim tíma sem bendi til þess að ég „hafi haft áhuga á að breyta landbúnaðarkerfinu“.

Þessi umgjörð blaðamannsins er dæmigerð fyrir skammsýni við skýringu á atburðum líðandi stundar. Niðurstaðan í málinu gegn Mjólkursamsölunni (MS) snýst ekki um landbúnaðarkerfið. Hún er um að MS hafi brotið samkeppnislög á grófan hátt. Hafi ég haft brennandi áhuga á að breyta landbúnaðarlöggjöfinni hefði það örugglega ekki breytt neinu um brotavilja ráðamanna MS. Þeir virtu ekki gildandi lög að mati Samkeppniseftirlitsins og MS verður þess vegna að greiða háa sekt sem velt verður yfir á bændur og neytendur.

Hinn 27. maí 2014 hlustaði ég á Daða Má Kristófersson flytja fróðlegan fyrirlestur um kúabúskap og mjólkurframleiðslu á fundi sem frambjóðendur D-listans í Rangárþingi eystra boðuðu í Gunnarshólma. Af orðum hans mátti ráða að mun meiri fastheldni á óbreytt kerfi sé innan landbúnaðarráðuneytisins en meðal bænda. Róttækar hugmyndir Daða Más féllu í góðan jarðveg hjá mér og mér sýndust bændur hafa  skilning á þeim. Skynsamleg rök hníga að breytingum og þeim þarf að halda fram utan þeirrar umgjarðar sem einkennir ofangreind skrif Fréttablaðsins og margra fleiri sem fjandskapast við bændur og láta eins og þeir vilji ekki ræða breytingar.

Merkilegt er að fylgjast með umræðunum um hleranir. Við framkvæmd þeirra ber vissulega að fara með gát en sakborningar leggjast gegn þeim vegna þess hve beitt vopn þær eru. Nú vilja þeir að vopninu sé beitt gegn sérstökum saksóknara sjálfum sér til málsbóta. Makmiðið er að grafa undan trausti í garð sérstaks saksóknara meðal almennings í von um að almenningsálitið móti afstöðu dómaranna.