21.9.2014 21:00

Sunnudagur 21. 09. 14

Flugum með Icelandair til Íslands úr sól og blíðu í Glasgow í dag. Við vorum á undan áætlun til Keflavíkurflugvallar, lending tókst í annarri tilraun en horfið var frá hin fyrri vegna roksins og rigningarinnar.

Spádómar um að eftirleikurinn vegna atkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Skotlands yrði óvandaður virðist að rætast þegar fylgst er með deilunum milli leiðtoga stóru bresku stjórnmálaflokkanna. Um vandamálin má meðal annars lesa á Evrópuvaktinni.

Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, óttast að missi þingmenn kjörnir í Skotlandi áhrif á Englandi jafngildi það áhrifaleysi flokksins til frambúðar. Hin sérkennilega staða að aðeins einn íhaldsmaður er í 59 manna hópi þingmanna frá Skotlandi býr að baki stórpólitíska árgreiningsins eftir að Skotar höfnuðu sjálfstæði.