13.9.2014 22:30

Laugardagur 13. 09. 14

Hinn 15. júní 2014 skrifaði ég hér á síðuna:

Ástandið versnar í Úkraínu með meira mannfalli en áður vegna hernaðarátaka. Blóðug átök eru í Sýrlandi og Írak, nýtt ríki ofstækismanna kann að koma til sögunnar. Spennan eykst milli Kínverja og Víetnama vegna ágreinings um yfirráð á Suður-Kínahafi. Japanir og Filippseyingar telja Kínverja beita sig órétti. Athygli beinist að herjum landanna. Ríkisstjórn Nígeríu getur ekki tryggt öryggi borgara sinna eða bjargað um á annað hundrað skólastúlkum sem hryðjuverkamenn rændu. Stjórnendur Evrópuríkja vara við hættunni af því að óvinir evrópskra þjóðfélaga, þjálfaðir í stríðinu í Sýrlandi láti að sér kveða með ógnarverkum í evrópskum borgum. Í Bandaríkjunum er stjórnkerfið sífellt í viðbragðsstöðu af ótta við nýja hryðjuverkaárás.

Þetta er dapurleg mynd sem boðar okkur óvissa og jafnvel hættulega framtíð. Hún vekur jafnvel spurningar um hvernig þriðja heimsstyrjöldin verður skilgreind þegar fram líða stundir.

Í dag berast fréttir um að Frans páfi hafi heimsótt stærsta hermannagrafreit á Ítalíu, Redipuglia-grafreitinn í grennd við Slóveníu, og minnst aldarafmælis fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í minningarræðu sagði hann að þriðja heimsstyrjöldin hefði ef til vill þegar hafist á brotakenndan hátt. Hann sagði:

„Jafnvel á líðandi stundu eftir önnur mistök sem leiddu til annars heimsstríðs má kannski núna tala um þriðja stríðið sem háð er brotakennt með glæpum, fjöldamorðum, eyðileggingu.“