21.6.2011

Þriðjudagur 21. 06. 11.

Lengsti dagur ársins og manni finnst varla að sumarið sé komið. Í dag var að vísu ekki eins loftkalt og verið hefur. Kannski  er veðrið að breytast til batnaðar.

Við litum í gær inn á sýninguna Myndin af Þingvöllum í Listasafni Árnesinga, Hveragerði, en Einar Garibaldi Eiríksson er sýningarstjóri. Þetta er forvitnileg sýning og vel þess virði að líta inn í hið myndarlega hús listasafnsins í Hveragerði. Einar Hákonarson listmálari reisti húsið af miklum stórhug á sínum tíma.

Meirihluti borgarbúa treystir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur best til að gegna embætti borgarstjóra eða rúm 50% en um 17% treysta Jóni Gnarr. Þá segjast um 44% munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef efnt yrði til borgarstjórnarkosninga nú. Flokkurinn í Reykjavík undir forystu Hönnu Birnu nýtur um 10 prósentustiga  meira fylgis en Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu samkvæmt síðustu könnun.

Jón Gnarr og Besti flokkurinn eru í frjálsu falli eins og eðlilegt er miðað við hvernig haldið er á stjórn borgarinnar. Jón Gnarr situr í embætti sínu í umboði Dags B. Eggertssonar og Samfylkingarinnar. Hvar sem Samfylkingin kemur að stjórn mála er eitthvers konar klúður.