4.6.2011

Laugardagur 04. 06. 11.

Í dag birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig í Sunnudagsmogganum. Þar ræðum við um Rosabaug yfir Íslandi. Ég átti erindi í N1 á Hvolsvelli. Þar er bókin til sölu.

Ég er þakklátur fyrir athyglina sem bókin fær. Hún er meiri og magnaðri en ég vænti og sýnir að áhugi er á því að brjóta Baugsmálið til mergjar. Því má ekki gleyma að árum saman var málið helsta fréttaefnið í landinu.

Ég vek athygli á vefsíðunni www.malsvorn.is þar sem lýst er stuðningi við Geir H. Haarde vegna landsdómsmálsins. Þetta eru pólitísk réttarhöld að undirlagi Steingríms J. Sigfússonar og annarra manna í hópi vinstri-grænna sem hafa aldrei lagt í uppgjör vegna hinnar pólitísku arfleifðar sem þeir gæta, það er kommúnismans og sósíalismans. Þegar gera hefði átt upp við þá eða þeir hefðu átt sjálfir að gera upp við arfleifðina hlupust þeir undan ábyrgðinni.

Í pólitískri arfleifð þeirra felast hins vegar óteljandi dæmi um pólitísk réttarhöld yfir andstæðingum. Þeir vilja nú ein slík hér á landi yfir Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokknum. Orð Steingríms J. um að hann hafi greitt atkvæði með ákæru á hendur Geir með „sorg í hjarta“ er eins og sniðið að kenningu kommúnista um hina „sögulegu nauðsyn“.

Svavar Gestsson leit á það sem hlutverk sitt í Icesave-málinu að sjá til þess að klína því að Sjálfstæðisflokkinn með aumlegum samningum við Breta og Hollendinga. Sú tilraun til pólitískra hefnda snerist í andhverfu sína. Hið sama hlýtur að gerast í landsdómsmálinu fái skynsemin ráðið. Framganga saksóknarans bendir því miður ekki til þess að hún sé í hávegum höfð.