29.9.2009

Þriðjudagur, 29. 09. 09.

Í hádegi fluttu tveir prófessorar erindi í Norræna húsinu, Christopher Coker frá London School of Economics og Valur Ingimundarson frá Háskóla Íslands. Coker ræddi um stöðu Atlantshafsbandalagsins (NATO) og samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkja. Hann telur ekki skynsamlegt að stækka NATO með því að verða við óskum frá Georgíu og Úkraínu um aðild. Hann sagði auðveldara að hefja stríð en ljúka því, eins og sannaðist í Bosníu, Írak og Afganistan. NATO væri í raun ekki fært um að heyja stríð.

Miklar umræður eru nú í Bandaríkjunum um Afganistanstríðið. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, hefur verið í Washington til viðræðna við ríkisstjórn Obama um næstu skref í stríðinu. Obama hefur fylgt þeirri stefnu, að barist skuli af þunga en nú er margt, sem bendir til þess, að hann vilji endurskoða þessa stefnu.

Valur Ingimundarson ræddi um Norðurskautið og stefnu ríkjanna, sem eiga land að Norður-Íshafinu. Hann verður gestur minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN klukkan 21.30 á morgun 30. september. Við ætlum að ræða þetta mál. Sjá má þáttinn á www.inntv.is.