17.11.2008 5:39

Mánudagur, 17. 11. 08.

Alþingi verður svipminna og leiðinlegra, eftir að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hverfur þaðan. Forseti alþingis hóf þingfund í dag kl. 15.00 á því að lesa tilkynningu frá Guðna um brotthvarf hans af þingi.

Við Guðni höfum um árabil setið saman í ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á Þingvallanefnd. Okkur tókst ávallt að leysa úr málum í góðri sátt og kveð hann sem vin á hinum pólitíska vettvangi, þótt flokksbönd hafið skilið á milli okkar.

Bjarni Harðarson, flokksbróðir Guðna og samþingmaður á Suðurlandi, kvaddi alþingi fyrirvaralaust á dögunum. Hann segir þetta um brottför Guðna úr formannsstóli Framsóknarflokksins, sem einnig var kynnt í dag (feitletrun mín):

„Líklega er það rétt hjá Guðna að eftirláta flokkinn því fólki sem hefur nú um langt skeið beitt öllum meðulum til að ná þar völdum. Leyfa þeim sem eyðilagt hafa flokksstarfið allt þetta kjörtímabil að spreyta sig. Kannski rís flokkurinn í höndum þessa fólks þegar við framsóknarmennirnir erum farnir.

Við Guðni ræddum þessa ákvörðun í gærkvöldi og ég studdi hann heilshugar í því sem hann er að gera. Ekki vegna þess að mér hugnaðist þessi lending, heldur vegna þess að ég tel að þær aðstæður sem honum voru skapaðar í flokknum hafi verið utan þess sem hægt sé að leggja á nokkurn mann.

Þegar þessi orð eru lesin, hljótum við, sem utan stöndum, að spyrja, hvað í ósköpunum sé á seyði í Framsóknarflokknum. Hvernig hefur verið vegið að Guðna? Af hverjum?

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður flokksins, sem sat miðstjórnarfund hans laugardaginn 15. nóvember segir á visir.is „Deilan á laugardaginn snérist um gagnrýni á alla forystu flokksins og sérstaklega á ráðherrana sem voru í ríkissjórn á þessum árum. Það var ekkert sérstaklega deilt á Guðna heldur á forystuna í heild sinni sem tók þátt í þessum hrunadansi.““

Í sama mund og sagt var frá afsögn Guðna á Stöð 2 var því slegið fram, að hann hækkaði í launum við afsögnina. Mátti skilja þetta á þann veg, að Guðni væri að segja af sér til að fá hærri laun. Skömmu síðar var Guðni beðinn afsökunar með þessum orðum á visir.is

„Í frétt Vísis í dag og á Stöð 2 í kvöld var því haldið fram að Guðni Ágústsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi þingmaður, fengi hærri laun á eftirlaunum á næsta ári heldur en hann þiggur í dag. Það er rangt og biður Vísir Guðna afsökunar á því.

Guðni fær í dag um 843 þúsund krónur í mánaðarlaun sem þingmaður en mun fá 560 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. “

Rætt var við Valgerði Sverrisdóttur, fráfarandi varaformann Framsóknarflokksins, í Kastljósi, en hún tekur nú við formennskunni af Guðna. Hún staðfesti þau orð Steingríms Hermannssonar, að Guðni einn hefði ekki sætt gagnrýni á miðstjórnarfundinum heldur öll flokksforystan.

Þau Valgerður og Guðni hafa deilt um afstöðuna til Evrópusambandsins (ESB) en Valgerður vill þangað inn. Í Kastljósinu var hún spurð um sölu bankanna, þegar hún var viðskiptaráðherra og gat hún þess meðal annars, að þaulkannað hefði verið, hvort þá hefði mátt selja með skilyrði um dreifða eignaraðild. Það hefði hins vegar verið bannað með EES-samningnum og síðan lét hún orð falla um, að frá Brussel fengjum við fyrirmæli send í pósti og gaf til kynna, að við gætum ekki ráðið neinu um efni þeirra og þess vegna ættum við að fara í ESB.

Þessi romsa um áhrifaleysi okkar á reglur, sem smíðaðar eru í Brussel, stenst einfaldlega ekki. Er verulegt áhyggjuefni, að Valgerður, sem hefur verið viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra skuli standa í þeirri trú, að Íslendingar verði að sitja með hendur í skauti og bíða þess, sem að þeim er rétt frá Brussel.

Því miður var þetta gert, þegar unnið var að reglusmíð um raforkumál og raforkusölu í Brussel. Ég er þeirrar skoðunar, að hefði iðnaðarráðuneytið staðið betur vaktina þá, hefðu sjónarmið um sérstöðu Íslands hlotið hljómgrunn á sérfræðingastigi, en þar er lagður grunnur að regluverkinu og að þeirri vinnu eiga íslenskir sérfræðingar aðgang.

Í pistli í gær vék ég að því, að Fréttablaðið breyttist ekki, þótt allt annað breyttist, enda væri Jón Ásgeir Jóhannesson enn eigandi þess. Vitnaði ég í leiðara Jóns Kaldals máli mínu til stuðnings. Jón Trausti Reynisson, leiðarahöfundur DV, sem er í eigu Hreins Loftssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Baugs, tekur upp þykkjuna fyrir Jón Kaldal. Jón Trausti segir (feitletrun mín):

„Björn Bjarnason kýs að gera einhverja auðvirðilegustu árás á Jón sem um getur. Hann heldur því fram á vefsíðu sinni að ritstjóranum sé handstýrt af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs. Björn hefur enga staðfestingu á því að Jón Kaldal sé svo ómerkilegur að gefa eftir eigin heiður sem manneskja og brjóta gegn grundvallarsiðferði blaðamennskunnar. Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að gagnrýni hans á aðgerðir Sjálfstæðisflokksins eiga rót í hans eigin rökhugsun og hann færir hana fram af krítískri frumskyldu sinni sem leiðarahöfundur. Það væri siðferðislega rangt af honum að gagnrýna ekki ráðandi öfl í þjóðfélaginu.

Á undanförnum árum hefur viðgengist að ráðamenn útmáli gagnrýnendur sína ýmist sem ómanneskjuleg verkfæri annarra eða þannig að þeir séu beinlínis skertir vitsmunum. Aðferðir ráðamanna eiga sér hliðstæðu hjá kaþólsku kirkjunni á miðöldum, sem lýsti því að gagnrýnendur væru á valdi djöfulsins: Viljalaus, ómanneskjuleg, ill fyrirbæri.

Dómsmálaráðherra ræðst ítrekað að æru fjölmiðlamanna opinberlega. Niðurstaðan er sú að yfirvöld drógu tennurnar úr gagnrýnendum og lömuðu aðhaldsafl markaðarins og helsta drifkraft lýðræðisins.
Björn Bjarnason vegur að heilbrigðu lýðræði þegar hann reynir tilefnislaust að rústa æru gagnrýnanda síns. Slíkt er verulega ámælisvert af hálfu dómsmálaráðherra. Hann ætti að biðja ritstjóra Fréttablaðsins afsökunar á alvarlegum atvinnurógi.

Ég skora á lesendur síðu minnar að bera stóryrði leiðarahöfundar DV saman við þau orð, sem ég lét falla í pistli mínum. Að mér dytti í hug, að segja einhvern á valdi djöfulsins í því samhengi er fráleitt en lýsir hins vegar heimi, sem er Jóni Trausta Reynissyni ofarlega í huga, þegar hann fjallar um þetta viðfangsefni sitt.