19.6.2017 12:10

Norskir þingmenn ræða öryggismál fyrir luktum dyrum

Kenningin um að viðbúnaður lögreglunnar kalli á fjölgun afbrota eða auki hörku í undirheimunum er röng. Telji lögreglan að hún verði að breyta aðferðum sínum er það vegna þess að samfélagið sem hún þjónar hefur breyst.

Á vef ríkisútvarpsins, ruv.is, má lesa þessa frétt í dag:

„Norska stórþingið kom saman snemma í morgun til lokaðs fundar til að ræða nýja skýrslu ríkisendurskoðunar landsins um öryggismál. Að sögn fréttastofu norska ríkisútvarpsins NRK leiðir skýrslan í ljós að lögreglan og her landsins telja sig ekki vera í stakk búin til að verja mikilvægar opinberar byggingar er öryggi ríkisins verður ógnað.

Fréttamenn fengu ekki að vera viðstaddir fundinn. Þá urðu þingmenn að skilja farsíma sína eftir utan við fundarsalinn áður en þeir gengu inn. Áætlað var að þessi lokaði fundur stæði í tvær klukkustundir. Að honum loknum stóð til að þingið kæmi saman til hefðbundinnar dagskrár.“

Í fréttinni kemur ekki fram að vegna þessa lokaða þingfundar hafi í norskum fjölmiðlum eða á samfélagssíðum byrjað umræður um öryggismál ríkisins á sama hátt og ýmsir gera hér á þann veg að veldur kjánahrolli.

Þegar rýnt er í skoðanir þeirra sem gagnrýna viðbúnað lögreglunnar vakna spurningar um á hvaða stigi lögreglan hefði átt að hætta að búa sig undir nýjar hættur vegna breytinga á samfélaginu. Kenningin um að viðbúnaður lögreglunnar kalli á fjölgun afbrota eða auki hörku í undirheimunum er röng. Telji lögreglan að hún verði að breyta aðferðum sínum er það vegna þess að samfélagið sem hún þjónar hefur breyst.

Aukin skilvirkni af hálfu lögreglunnar leiðir meðal annars til þess að föngum fjölgar og biðlistar eftir að taka úr refsivist lengjast. Almennt er þetta litið jákvæðum augum þar sem þetta efli öryggi í samfélaginu.

Þegar kemur að glæpaverkum á borð við hryðjuverk virðast ýmsir vilja að lögregla sitji með hendur í skauti og bíði þess sem verða vill. Hvort heldur hugmyndir um forvirkar rannsóknarheimildir eða ákvörðun um hæfilegan viðbúnað á fjölmennum hátíðum vekja uppnám meðal ýmissa hópa. Hvaða hagsmuni eru þeir að verja?

Að ræða þessi mál á forsendum þeirra sem telja viðbúnað gegn voðaverkum hættulegri en svigrúm illvirkja til undirbúnings ódæðisverkum færir umræðurnar í blindgötu.