9.9.2020 11:41

Misráðin Tyrklandsheimsókn

Frásagnir heimamanna í Tyrklandi af heimsókn Róberts Spanós eru á þá leið að hann hafi ekki haft hugrekki til að ræða við aðra en Erdogan vildi.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag (9. september) grípur Aðalheiður Ámundadóttir til varna fyrir Róbert Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), vegna opinberrar heimsóknar hans til Tyrklands, 45 mínútna fundar með Erdogan Tyrklandsforseta og viðtöku heiðurdoktorsnafnbótar frá Istanbul-háskóla.

Frá því að Evrópuráðið kom til sögunnar og Tyrkland gerðist aðili að því árið 1950 hefur engin sambærileg stjórn setið í landinu og sú sem nú situr. Þær hafa allar fram að Erdogan virt stefnuna sem Kamal Atatürk mótaði árið 1923 þegar Tyrkland var lýst lýðveldi og skil urðu milli trúar og stjórnmála meðal annars með því að afhelga Ægisif sem mosku. Gegn þeirri ákvörðun gekk Erdogan fyrir fáeinum vikum til að auka fylgi sitt meðal róttækra múslima sem vilja innleiða stjórnarhætti og réttarfar Kóransins.

Tyrknesk stjórnvöld hafa markvisst unnið gegn því sem Atatürk vildi og þar með ýmsum grunngildum sem liggja að baki sáttmálum um Evrópuráðið og MDE.

EhBEgr3XcAAfjYvAð þingmennirnir Rósa Björk Brynjólfsdóttir (VG) og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skuli ásamt leiðarahöfundi Fréttablaðsins grípa til varna fyrir Tyrklandsferð forseta MDE í nafni mannréttinda og hefðar er til marks um óheillaþróun hjá þessum stofnunum í Strassborg.

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson segir á Facebook-síðu sinni 7. september:

„Í nýútkominni bók „Draumur og veruleiki“ eftir Kjartan Ólafsson, þar sem hann fjallar um sögu Kommúnistaflokks Íslands og Sósíalistaflokks Íslands, kemur fram að ákveðnir einstaklingar í þeim flokkum hafi staðið í þeirri bjargföstu trú að þeir gætu haft áhrif á stefnu og athafnir forystumanna í kommúnistaflokki Sovétríkjanna með gagnorðum skoðanaskiptum við þá. Sagan og rannsókn á heimildum hefur leitt í ljós staðreyndir í þeim efnum. Mér finnst örla á hliðstæðri trú hjá þeim sem eru að réttlæta það að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu hafi tekið við heiðursdoktorsnafnbót við ríkisrekinn háskóla í Tyrklandi.“

Í fyrrnefndum leiðara Fréttablaðsins segir:

„Það verður erfitt að mæla árangur heimsóknarinnar og áhrif hennar til framtíðar. Skaðinn af því að brjóta hefðina og sitja heima hefði hins vegar skilað sér strax, í enn stirðari samskiptum við þetta ódæla aðildarríki og erfitt að sjá hvernig það hefði samrýmst markmiðum Evrópuráðsins. Öfugt við það sem sumir virðast halda er hlutverk dómstólsins ekki að fara með ófriði á hendur einstökum aðildarríkjum sínum.“

Þessi orð Aðalheiðar Ámundadóttur ríma alveg við það sem sagt var á tíma Stalíns þegar menn sóttu Sovétríkin heim og töldu sig breyta gangi heimsmála og bæta kjör sovéskrar alþýðu með því að heimsækja ekki annað og aðra en Stalín vildi.

Frásagnir heimamanna í Tyrklandi af heimsókn Róberts Spanós eru á þá leið að hann hafi ekki haft hugrekki til að ræða við aðra en Erdogan vildi.

Şebnem Korur Fincancı, réttarlæknisfræðingur og formaður Mannréttindasamtaka Tyrklands (TİHV), sagði við Yavuz Baydar, aðalritstjóra vefsíðunnar Ahval, að forseti MDE hefði aðeins hitt embættismenn stjórnvalda og heimsótt opinberar stofnanir en neitað að hitta fulltrúa mannréttindahreyfinga í landinu. Hann hefði í raun grafið undan trausti í garð MDE og sjálfs sín með heimsókn sinni. Hann ætti að segja af sér.