2.11.2025 10:50

Manneskjur Steinunnar

Bókin sýnir vel alþjóðlegu víddina í listsköpun hennar, bæði myndirnar og texti erlendra höfunda sem fjalla um listaverkin.

Í dag, 2. nóvember, er lokadagur sýningarinnar Maður með verkum Steinunnar Þórarinsdóttur í galleríinu Þulu í Marshall-húsinu á Grandagarði. Í kynningarblaði sýningarinnar segir:

„Í tæpa fimm áratugi hefur Steinunn rannsakað viðfangsefni sitt [manneskjuna] af mikilli festu. Höggmyndir hennar í raunstærð, mótaðar eftir líkama og umbreyttar í áferð og efni, eru bæði kunnuglegar og ókunnulegar. Í fyrstu virðast þær nánast full mennskar þar sem þær taka allt pláss í rósemd sinni líkt og þær séu að hvíla sig, bíða eða séu í samræðum. Við nánari skoðun sýnir þó andlitsleysi, kynleysi og kyrrð tilvist veru sem endurspeglar mennsku okkar en er á sama tíma eitthvað annað og meira.“

Í gær veitti Steinunn þeim sem heimsóttu Þulu leiðsögn um sýninguna og Gísli Pálsson mannfræðingur ræddi um verk hennar, auk Þrastar Helgasonar en báðir eiga þeir greinar í glæsilegri listaverkabók um ævistarf Steinunnar, Maður, sem KIND, forlag Þrastar, gaf út samhliða sýningunni. Hún er fyrsta einkasýning hennar hér í tæpan áratug og haldin í tilefni sjötugsafmælis Steinunnar.

Bókin er fyrsta yfirlitsrit um list Steinunnar en hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir list sína hérlendis sem erlendis. Sumarið 2024 flutti Steinunn erindi um list sína og sýndi myndir af verkum sínum hjá okkur Rut á Kvoslæk. Þar kynntumst við því fyrst hve verk Steinunnar má sjá víða um heim. Bókin sýnir vel alþjóðlegu víddina í listsköpun hennar, bæði myndirnar og texti erlendra höfunda sem fjalla um listaverkin.

Eitt af því sem bar á góma í spjalli Steinunnar við sýningargestina í Þulu í gær var gildi þess að listaverk fengju að njóta sín í almannarými. Sagðist hún hafa séð mörg dæmi þess hvernig andrúmsloft breyttist væri verkum hennar valinn staður þar sem fólk gengi til daglegra starfa sinna.

Hér eru nokkrar myndir úr Þulu laugardaginn 1. nóvember.

IMG_2954Steinunn auk höfunda í bókinni um hana og verk hennar Gísli Pálsson (t.v.) og Þröstur Helgasan með bókina en að baki honum er hliðvörður við vegg, hann getur einnig staðið óstuddur.

IMG_2950IMG_2953