Lögmæt brottvísun sætir gagnrýni
Að baki upphlaupa í þágu hælisleitenda standa að jafnaði innlendir aðilar. Í fjölmiðlum segir að No Borders samtökin hafi fyrst vakið athygli á þessu máli.
Undanfarin sólarhring hefur athygli beinst brottvísun konu sem er langt gengin með barn. Fréttir að morgni miðvikudags 6. nóvember herma að hún sé komin heim til sín í Albaníu eftir 19 klukkustunda ferð héðan um Berlín þriðjudaginn 5. nóvember.
Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, sat fyrir svörum í Kastljósi að kvöldi 5. nóvember. Hann gerði skilmerkilega grein fyrir því að engar reglur hefðu verið brotnar af hálfu opinberra aðila.
Upphaf málsins er að sjálfsögðu að konan kom hingað með fjölskyldu sinni á ólögmætum forsendum. Þetta er ekki fyrsta dæmið um að leitast sé við að komast undan lögmætri afgreiðslu yfirvalda með því að höfða til mannúðar á almennum vettvangi. Þar er sagan öll yfirleitt ekki sögð.
Að baki upphlaupa í þágu hælisleitenda standa að jafnaði innlendir aðilar. Í fjölmiðlum segir að No Borders samtökin hafi fyrst vakið athygli á þessu máli. No Borders fengu fyrir nokkru borgarstjórann í Reykjavík til að leyfa sér að tjalda á Austurvelli, honum og öllum viðkomandi til skammar.
Þeir sem að úrlausn þessara mála starfa vita að við þessar aðstæður virðist oft beint samband milli andstæðinga yfirvaldanna og fréttastofu ríkisútvarpsins. Eftir að upplýst var um samráð milli fréttamanns og stjórnenda seðlabankans um húsleitarfrétt hjá Samherja standast vinnureglur fréttastofunnar ekki gagnrýni, jafnvel þótt formaður Blaðamannafélags Íslands leggi blessun sína yfir þær. Fréttastofunni ber að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Fari menn í saumana á málum af þessu tagi og greini gang þeirra sést að mismunandi aðferðum er beitt til að reyna á þolrif stjórnkerfisins og afla sér bandamanna til að sverta starfsmenn þess og stjórnmálamenn.
Að nokkru leyti er um félagslega tilraunastarfsemi að ræða þar sem einstaklingurinn sem í hlut á er tæki til að ná einhverju fram sem liggur ekki alltaf í augum uppi. Þótt forráðamenn No Borders og biskup Íslands séu sammála í þessu máli er ekki þar með sagt að tilgangur þeirra sé sá sami. No Borders vill stuðla að sundrung samfélagsins en þjóðkirkjan hefur til þessa litið á sig sem afl í þágu samheldni. Vísasta leiðin til að tryggja hana er að yfirvöld fari að settum lögum og reglum eins og gert var í þessu máli.
Í þessu tilviki er gerð sérstök atlaga að læknum. Fór No Borders-fólk til dæmis í Miðstöð sóttvarna í Mjódd til að mótmæla efni læknisvottorðs þaðan!
Í nágrannalöndunum hafa umræður þróast á þann veg að hætt er að veitast að yfirvöldum eins og hér er gert þegar þau sinna skyldum sínum í útlendingamálum. Þar þykir annaðhvort ekki fréttnæmt að yfirvöld sinni skyldum sínum á þessu sviði eins og öðrum eða menn benda á að ekki sé nóg að gert til að stemma stigu við ólögmætum ferðum fólks til landanna.
Nýleg frétt frá Bretlandi um 39 látna Víetnama í kæligámi aftan í flutningabíl hefur dregið athygli að skuggahliðinni, smyglurunum sem að baki standa og hika ekki við að senda fólk í opinn dauðann gegn háu gjaldi.
Af þeim sem skipuleggja ólögmætar ferðir hælisleitenda hingað verður rýnt í viðbrögðin við þessu nýjasta atviki.