20.9.2020 12:59

Liðsauki Ingu – brölt Benedikts

Ári fyrir þingkosningar veldur Benedikt Jóhannesson uppnámi meðal fjögurra þingmanna og verðandi varaformanns Viðreisnar.

Kosið verður til alþingis 25. september 2021. Ári fyrir kjördag berast fréttir um að kanónur hugsi sér til hreyfings.

Inga Sæland, formaður Fólks flokksins, sagði til dæmis í Morgunblaðinu í gær (19. september):

„Þessa dagana er okkur í Flokki fólksins að berast nýr liðsauki. Fólk gengur til liðs við okkur og vill vera með. Tómas Tómasson veitingamaður, oftast kenndur við Tommaborgara, er einn þeirra sem nú eru stignir um borð til okkar. Tómas er afar reyndur, bæði úr atvinnulífinu sem og lífsins skóla. Við verðum að fara að gæta betur að þeirri auðlegð sem býr í eldra fólki.“

Þarna boðar Inga að hún ætli flokki sínum að huga „að þeirri auðlegð sem býr í eldra fólki“ en Tómas gengur til liðs við hana 71 árs og vísar til þess að Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, sé 78 ára. Sjálfur segist Tómas hafa einsett sér frá því að hann opnaði Tomma hamborgara í mars 1981 að fara út í pólitík. Að hann bjóði sig fram til þings 40 árum síðar, þá orðinn 72 ára, leiðir til áhuga hans á málefnum eldri borgara og þess vegna Flokki fólksins.

Á þessu kjörtímabili hefur Flokkur fólksins einkum vakið athygli sem stökkpallur inn í Miðflokkinn. Tómas segir réttilega að einhvers staðar verði hann að byrja reynslulaus í pólitíkinni. Hann velur sér ekki flokk með háum þröskuldi.

Thkg-hkf-750x430Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingmenn Viðreisnar: Ætlar Benediukt að sækja gegn þeim eða verðandi varafomranni flokksins?

Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrrverandi formaður Viðreisnar, bauð sig fram til þings á sínum tíma í Norðausturkjördæmi til að sýna að flokkurinn ætti erindi til allra landsmanna. Náði hann kjöri í fyrstu atrennu en eftir að hafa gegnt embætti fjármálaráðherra í nokkra mánuði, sagði hann af sér flokksformennsku þegar fylgi flokksins mældist 3% um þetta leyti árs 2017. Hlaut hann ekki endurkjör fyrir norðaustan í þingkosningum síðar það ár og boðar nú að hann ætli að leita fyrir sér á suðvesturhorninu til að berjast gegn popúlistum og komast á þing.

Suðvesturhorn nær til fjögurra kjördæma, Suðurkjördæmis, Suðvesturkjördæmis, Reykjavíkur suður og Reykjavíkur norður. Viðreisn á engan þingmann í Suðurkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flokksformaður skipar efsta sæti í Suðvesturkjördæmi og þar er einnig Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson er oddviti Viðreisnar í Reykjavík suður og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir í Reykjavík norður.

Þorbjörg Sigríður settist á þing þegar Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi varaformaður Viðreisnar, sagði af sér þingmennsku. Nýr varaformaður Viðreisnar verður kosinn á þingi flokksins 25. september en Daði Már Kristófersson prófessor gefur kost á sér í embættið, nái hann kjöri stefnir hann örugglega á að leiða lista flokksins í Reykjavík.

Ári fyrir þingkosningar veldur Benedikt Jóhannesson uppnámi meðal fjögurra þingmanna og verðandi varaformanns Viðreisnar. Benedikt er greinilega afgangsstærð í valdakerfi smáflokksins Viðreisnar. Tekst honum að breyta því? Ólíklegt er að valdabröltið verði til að stækka flokkinn.