Leið Íslands á ESB-kandídatsstig
Til þess að hljóta samþykki leiðtogaráðsins verða forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra að leggjast í víking og tryggja málstað sínum stuðning í höfuðborgum ESB-landanna 27.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur gengist undir þá skilgreiningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að Ísland sé aðildarumsóknarríki. Í því felst að stækkunardeild ESB undirbýr næsta skref, að Ísland verði aðildarkandídat. Til þess þarf að endurstaðfesta ESB-aðildarumsókn Íslands frá 2009 með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem ríkisstjórnin hefur boðað að haldin verði fyrir árslok 2027. Leiðtogaráð ESB verður að samþykkja einróma tillögu framkvæmdastjórnarinnar um að Ísland verði sett á ný yfir lista um kandídatsríki, það er lista yfir umsóknarríki, þaðan hvarf Ísland 2015.
Til þess að hljóta samþykki leiðtogaráðsins verða forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra að leggjast í víking og tryggja málstað sínum stuðning í höfuðborgum ESB-landanna 27. Þetta er mikið verkefni samhliða því sem unnið er að undirbúningi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og breytingu á stjórnarskránni til að flytja megi vald frá ríkisstjórn, alþingi og hæstarétti til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
Hér er kynnt raunsætt mat á höfuðatriðum þess sem einkenna mun íslensk stjórnmál og þjóðmálaumræður á næstu misserum, fari svo fram sem horfir.
Alþingi samþykkti ESB-aðildarumsóknina 16. júlí 2009. Eftir það tók framkvæmdastjórn ESB sér tæpt ár til að meta hvort Ísland uppfyllti aðildarkröfur samkvæmt svonefndum Kaupmannahafnarreglum frá 1993. Var íslenskum stjórnvöldum tilkynnt að tillagan um að Ísland færi á kandídatsstig yrði tekin fyrir í leiðtogaráði ESB 17. júní 2010.
Ólafuf Rgnar og Tarja Halonen Finnlandsforeti á hlaðinu á Bessastöðum 19. september 2000.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, gaf út dagbókarbrot frá forsetatíð sinni á liðnu hausti í bókinni Þjóðin og valdið.
Í bók sinni segir Ólafur Ragnar frá samtali sínu við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í júní 2010 og áhyggjum ráðherrans yfir því að vegna Icesave-deilunnar ynnu Bretar gegn því í leiðtogaráðinu að Ísland yrði kandidat. Össur safnaði stuðningsliði í leiðtogaráðinu og spurði forsetann hvort hann vildi hringja í frú Halonen Finnlandsforseta og vísa í vinsamlegt samtal Össurar og Ólafs Ragnars við hana í New York í september 2008 þar sem hún hefði lofað stuðningi við ESB-aðild Íslands (bls. 262).
Í september 2008 var ESB-aðild Íslands ekki á stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands. Samt sátu starfandi utanríkisráðherra og forseti Íslands þá á hljóðskrafi við forseta Finnlands í New York um hana!
Ólafur Ragnar sagði við Össur að hann gæti bara sjálfur hringt í finnska forsetann. Össur gaf sig ekki gagnvart forseta Íslands sem sagði „hæpið“ að hann færi að blanda sér „beint í ESB-ferlið“. Hins vegar sagði hann dagbókinni að mikilvægt væri að gera það til að „treysta á ný sambandið við Össur“. Ólafur Ragnar sagðist geta sagt að ríkisstjórnin hefði beðið sig um að hringja ef málið kæmi „einhvern tímann til tals“. Hann hringdi því í finnska forsetann 4. júní 2010 til að hjálpa Össuri við að ýta ESB-aðildarviðræðunum af stað „og var það fínt samtal“ (bls. 263).
Leiðtogaráð ESB samþykkti 17. júní 2010 að viðræður um aðlögun skyldu hafnar við Ísland. Þær strönduðu strax í mars 2011 vegna sjávarútvegsmála.