12.5.2024 14:03

Landbúnaður í Seltjarnarneskirkju

Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og þeir verða að hafa svigrúm til verðmætasköpunar. Á framtak þeirra verður að treysta til að skapa þjóðinni fæðuöryggi. 

Í morgun (12. maí) klukkan 10.00 var ég í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju í boði sr. Bjarna Þórs Bjarnasonar sóknarprests og talaði um landbúnað og byggðafestu, annars vegar út frá skýrslunni Ræktum Ísland! sem lögð var til grundvallar við gerð landbúnaðarstefnunnar sem alþingi samþykkti 1. júní 2023 og hins vegar skýrslunni Leiðir til byggðafestu sem kom út nú í mars.

Við Hlédís Sveinsdóttir unnum að gerð þessara skýrslna. Hlédís hefur reynslu af bústörfum, matarmörkuðum og margvíslegri nýsköpun í landbúnaði. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fékk tækifæri til að ræða þessi verkefni sameiginlega á fundi með þessu sniði og fyrir áheyrendum úr ólíkum áttum. Sannaðist þar enn hve þakklátt verkefni það er að halda fram málstað þeirra sem leggja sitt af mörkum til að landið allt sé í byggð.

Screenshot-2024-05-12-at-14.02.09

Eftir að hafa kynnt mér stöðu sveitarfélaganna sex sem koma við sögu í skýrslunni Leiðir til byggðafestu vex undrun mín á árekstrunum sem eru á milli þeirrar stefnu annars vegar sem á að ýta undir byggðafestu og regluverksins hins vegar sem lamar framkvæmdavilja og þrengir svigrúm þeirra sem búa í dreifðum byggðum landsins og vilja leggja sitt af mörkum til að byggð sé sem víðast.

Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og þeir verða að hafa svigrúm til verðmætasköpunar. Á framtak þeirra verður að treysta til að skapa þjóðinni fæðuöryggi. Íþyngjandi opinbert regluverk er ávallt umræðuefni þegar rætt er við bændur um stöðu þeirra.

Nú í vetur var rekið upp ramakvein þegar þingnefnd jók svigrúm afurðastöðva bænda innan samkeppnisreglna til að bæta samkeppnisstöðu landbúnaðarins gagnvart innfluttum landbúnaðarvörum. Formaður Neytendasamtakanna sagði að samþykkt alþingis á lögum sem hann er ósammála jaðraði við spillingu!-.

Með strandveiðum er haldið í atvinnuhætti sem lögðu grunn að stóriðjuveiðunum sem stundaðar eru með hátækni á mjög arðbæran hátt af þeim sem ráða yfir kvóta til fiskveiða.

Strandveiðar stuðla að byggðafestu víða um land og ekki síst á stöðum sem ekki eru í alfararleið. Má þar nefna Norðurfjörð á Ströndum, skammt frá Hvalá í Árneshreppi sem hefur árum saman verið í fréttum vegna tilrauna til að hindra virkjun hennar. Regluverkinu tekst kannski að murka lífið úr strandveiðunum og í krafti þess er allt gert til að hindra virkjun Hvalár. Hvers vegna er regluverkinu liðið þetta ef byggðafesta er markmið byggðastefnu?

Viðnámsþróttur eða seigla samfélaga ber hátt nú á tímum þegar hætta á stórátökum er meiri en nokkru sinni frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar. Viðnámsþróttinn má mæla á ýmsan hátt, til dæmis með því að skilgreina hve lengi þjóðlíf getur þrifist sjálfbært. Einn mælikvarði er hve lengi þjóðir geta lifað á sjálfsþurftarbúskap og hvaða atvinnugreinar ber að vernda til að kunnáttan til að stunda þann búskap hverfi ekki. Þar skora bændur og strandveiðimenn hærra en eftirlitsmenn.