18.8.2025 9:39

Kubbað í kennaranámi

Þá grunaði mig að kennaranám og viðhorf fræðimanna til þess hvernig helst mætti stuðla að árangri í námi hefði fjarlægst það sem ég leit á sem veruleika í samfélagi okkar.

Viðskiptaráð ætti að beita sér fyrir því að sjálfstæður skóli tæki að sér menntun kennara. Umræður um skólamál og menntun tóku kipp fyrir um það bil ári þegar ráðið birti gagnrýni sína og lagði fram tillögur í þremur liðum:

  • Hætt verði við áform um endanlegt afnám samræmdra prófa.
  • Niðurstöður samræmdra prófa og PISA-mælinga verði birtar opinberlega niður á einstaka skóla til að tryggja jafnræði og umbætur þegar kemur að námsárangri.
  • Framhaldsskólum verði frjálst að nota samræmd próf eða inntökupróf til að tryggja jafnræði meðal umsækjenda um skólavist.

Forráðamenn kennara brugðust illa við þessum hugmyndum og menntamálaráðherra Flokks fólksins er nú á bandi þeirra sem hafa sölsað undir sig menntakerfið og vilja að það snúist meira um leiki og föndur en hagnýta og góða menntun.

Screenshot-2025-08-18-at-09.37.23Af mbl.is 18. ágúst 2025.

Í Morgunblaðinu í dag (18. ágúst) er rætt við Söru Júlíusdóttur, sem er að hefja sitt þriðja ár í grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands. Hún gagnrýnir námið og segir það alls ekki búa kennara undir raunveruleg viðfangsefni þeirra innan veggja skólanna. „Allt of mikil áhersla er lögð á að kenna leiki og föndur en of lítil á fagleg atriði sem skipta máli, að hennar mati“ segir í blaðinu.

Sara kynnti á dögunum gagnrýn sjónarmið sín með myndbandi á TikTok. Segir Morgunblaðið að viðbrögð við því sýni að margir kennaranemar, núverandi, tilvonandi og fyrrverandi, vilji sjá breytingar á kennaranáminu.

Fyrir nokkrum misserum var ég beðinn að hitta bandarískan fræðimann sem var að gera, ásamt íslenskum fræðimanni, rannsókn á þróun íslenska grunnskólakerfisins. Var ég spurður um þá stefnu sem fylgt var í tíð minni sem menntamálaráðherra á fyrstu árunum eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.

Ég lagði áherslu á gildi samræmdra prófa, birtingu upplýsinga um stöðu skóla og námsárangur og gildi þess að halda úti sjálfstæðum skólum (einkareknum) sem hefðu eigin tekjustofna samhliða því sem opinberir aðilar keyptu af þeim þjónustu.

Mér virtist sem þessi viðhorf féllu ekki í kramið hjá menntavísindamönnunum en samtal okkar var skemmtilegt og ögrandi vegna ólíkra sjónarmiða.

Þá grunaði mig að kennaranám og viðhorf fræðimanna til þess hvernig helst mætti stuðla að árangri í námi hefði fjarlægst það sem ég leit á sem veruleika í samfélagi okkar, að búa ætti nemendur undir að lífið er ekki dans á rósum heldur yrði hver og einn að leggja rækt við að ná sem bestum árangri á hvaða sviði sem væri – það krefðist réttra vinnubragða, aga og metnaðar.

„Mér finnst ég ekki vera að læra neitt. Ég kannski mæti í tíma og við erum að kubba. Svo mæti ég í næsta tíma og við erum í Varúlfi og nafnaleik. Við erum líka að æfa okkur í að halda bekkjarkvöld. Svo erum við að tala um kenningar,“ segir Sara í samtali við Morgunblaðið.

Þarf nokkurn að undra að unnið sé markvisst gegn samræmdum prófum eða gegn miðlun upplýsinga um árangur í skólastarfi sem starfar á þessum grunni?