25.7.2020 10:34

Kjördagur verður 25. 09. 21

Í yfirlýsingu forsætisráðherra um kjördag 25. september 2021 felst mikilvæg staðfesting á pólitískum stöðugleika við einstakar aðstæður.

Rök stjórnarandstöðunnar gegn því að þing sitji svo að segja út kjörtímabilið og kosið verði 25. september 2021 eru haldlaus.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir „mjög slæmt fyrir nýja ríkisstjórn að taka við fjárlögum frá fráfarandi stjórn“. Einn af kostum þess að halda kosningar að vori sé að þá fái ný ríkisstjórn tíma til að innleiða stefnu sína með fjárlögum. „En með þessu móti situr ný stjórn uppi með fjárlög frá fráfarandi stjórn og hefur mjög takmarkað svigrúm til að gera breytingar á þeim,“ segir Sigmundur Davíð í Morgunblaðinu í dag (25. júlí).

Sigmundur Davíð hlýtur að vita betur. Fjárlagavinnan er engin lotuvinna á síðustu dögum áður en þing er sett að hausti – fjárlagafrumvarpið er fyrsta mál á dagskrá hvers þings. Meginstefna frumvarpsins er mótuð á vorþingi og þess vegna er í raun rökrétt með vísan til afstöðu stjórnmálaflokkanna til ríkisfjármála að kosið sé um hana að hausti. Vilji kjósendur kollvarpa ríkisfjármálastefnunni á nýju þingi er eðlilegt að kynna þeim kostina síðsumars áður en þingið hefst.

Fjárlagagerð í ár fyrir 2021 er sérstök vegna COVID-19 og tekist verður á við fjárlagavanda vegna faraldursins næstu ár. Ríkisstjórnin mótaði farsæla stefnu í efnahagsmálum þegar hún stóð frammi fyrir vandanum eins og ríkisstjórn Geirs H. Haarde gerði með neyðarlögunum í október 2008. Vandræðin við stjórn landsmála hófust ekki fyrr en með Jóhönnustjórninni – kröfunni um nýja stjórnarskrá, ICESAVE-hneykslinu, ESB-aðildarumsókninni, aðförinni að fiskveiðistjórnunarkerfinu og uppgjöfinni gagnvart kröfuhöfunum innan haftanna.

Jóhönnustjórnin hóf þessa vitlausu vegferð án kosninga en með stuðningi Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og lauk eyðimerkurgöngunni ekki fyrr en vorið 2013.

Stjórnmálaástandið er allt annað núna heldur en í ársbyrjun 2009 enda eiga Samfylkingin eða aðrir flokkar taugatitrings og hneykslunar ekki aðild að ríkisstjórninni. Í yfirlýsingu forsætisráðherra um kjördag 25. september 2021 felst mikilvæg staðfesting á pólitískum stöðugleika við einstakar aðstæður.

1534752792_arollurSauðburður eða göngur og réttir ráða ekki lengur ákvörðun um kjördag.

Í Morgunblaðinu segir einnig:

„Þá lýstu nokkrir formenn þeirri skoðun sinni að bagalegt væri að vera í kosningabaráttu yfir hásumarið þegar flestir landsmenn vildu helst fá að njóta lífsins í sumarfríi í friði fyrir pólitíkinni.“

Þessi gagnrýni á val á kjördegi er furðuleg. Hverjum dettur í hug að efna til kosningabaráttu „yfir hásumarið“ þegar kjördagur er 25. september? Að ekki skuli vísað í göngur og réttir sýnir breytta þjóðfélagshætti. Ákvörðun um kjördag hér tók löngum mið af háttum sauðkindarinnar. Nú er sem sagt hætt að minnast á hana við stórpólitískar ákvarðanir.

Þjóðlífið tók á sig algjörlega nýja mynd í lok febrúar og byrjun mars. Ríkisstjórnin styrkti stöðu sína vegna viðbragðanna við COVID-19. Hún starfar sem sátta- og stöðugleikastjórn andspænis málefnasnauðri stjórnarandstöðu.