26.5.2018 10:00

Kjördagur - valið er auðvelt

Könnunin sýnir fall meirihluta Samfylkingar, VG og Pírata. Þessir þrír flokkar voru í bullandi vörn í umræðunum og þó einkum Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Fulltrúar 16 flokka kynntu stefnu sína fyrir borgarstjórnarkosningarnar í sjónvarpinu í gærkvöldi (25. maí). Þessu var skipt í tvö lið – í fyrri umferð voru fulltrúar flokka sem höfðu fengið betra brautargengi en þeir sem voru í seinni umferðinni. Að hlusta á þá sem töluðu fyrir hönd minnstu flokkanna var að ýmsu leyti hressilegra en að hlusta hina sem taldir eru eygja möguleika á að eignast fulltrúa í nýrri borgarstjórn. Könnun Gallup fyrir ríkisútvarpið sem birt var í gær sýnir að alls kunni 7 flokkar að fá kjörna borgarfulltrúa:

Sjálfstæðisflokkurinn með 28,3%, Samfylkingin 26%, Píratar 11%, Viðreisn 8,7%, Vinstri græn með 6,2%, Miðflokkurinn 5,8% og Flokkur fólksins 3,8%. Sósíalistaflokkurinn kemst næst því að ná inn manni með 3,4%. Þar á eftir kemur Framsóknarflokkurinn með 2,9%.

Könnunin sýnir fall meirihluta Samfylkingar, VG og Pírata. Þessir þrír flokkar voru í bullandi vörn í umræðunum og þó einkum Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Furðulegt að Dagur B. skyldi enn einu sinni reyna að skella skuldinni á Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk í ríkisstjórn þegar hann reyndi að afsaka lóðaskortinn í Reykjavík sem birtist í mesta húsnæðisskorti um langt árabil í borginni. Enginn samtíma stjórnmálamaður hefur talað meira um húsnæðismál en Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, flokks Dags B. Áhrif hennar á þróun þessa málaflokks hefur aðeins orðið til að auka á flækjustigið innan hans. Við það bætist síðan flækjustigið í stjórnkerfi borgarinnar sem hefur undanfarin 8 ára tekið mið af þeim stjórnarháttum Dags B. að enginn beri í raun ábyrgð á neinu, henni megi alltaf reyna að varpa á herðar annarra.

Þessi skortur á ábyrgðarkennd birtist hvað skýrast í skólpmengunarslysinu við stendur borgarinnar sumarið 2017. Viðbrögð borgarstjórnarmeirihlutans við bilunum í skólpdælingu voru skammarlegri en bilanirnar sjálfar. Viðhorfið sem þau lýstu til dæmis til barna á siglingarnámskeiðum á þessum slóðum og raunar borgarbúa almennt var afar dapurlegt. Þarna birtist einnig vel samskiptaleysi yfirvalda við borgarbúa. Borgarstjóri nálgaðist málið eins og fréttaskýrandi en ekki sá sem sat uppi með lokaábyrgðina.

Öll kosningabarátta meirihlutans í borgarstjórn hefur snúist um að upphefja Dag B. Aðrir á lista Samfylkingarinnar hafa ekki sést í kosningabaráttunni og í umræðunum í gærkvöldi voru frambjóðendur VG og Pírata eins og bergmál af Degi B. Það yrði einkennileg fréttaskýring að kosningum loknum að að rekja lítið fylgi VG í borginni til þess að Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Verði 7 flokkar með fulltrúa í næstu borgarstjórn Reykjavíkur ættu umræðurnar í gærkvöldi að leiða til þess að Sósíalistaflokkurinn verði í sjöunda sæti í stað Flokks fólksins.