14.8.2025 10:30

Innri sundrung ógnar lýðræði

David Betz telur að innan samfélaganna hafi myndast hópar skilgreindir af kynþætti sínum, trúarbrögðum, þjóðerni eða menningarlegum uppruna sem setji eigin hagsmuni í forgang, á kostnað sameiginlegra hagsmuna. 

Í franska blaðinu Le Figaro er fimmtudaginn 14. ágúst sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem birtist í Military Strategy Magazine eftir David Betz, mikils metinn prófessor við King´s College, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar vegna rannsókna í „styrjaldarfræðum“.

David Betz varar við hættu á borgarastyrjöldum í Evrópulöndum, sérstaklega í Frakklandi og Bretlandi. Þó að ytri ógnir eins og stríðið í Úkraínu vegi þungt heldur breski prófessorinn því fram að helsta hættan geti í raun komið að innan. Lengi vel hafi vestrænar þjóðir talið sig ónæmar fyrir borgarastyrjöldum, sannfærðar um að nútímaleg, lýðræðisleg og velmegandi samfélög gætu ekki orðið glundroða að bráð. Að mati Davids Betz er þessi tilfinning nú úr sögunni þar sem samfélög okkar einkennist nú af „sundrungu“.

David Betz telur að innan samfélaganna hafi myndast hópar skilgreindir af kynþætti sínum, trúarbrögðum, þjóðerni eða menningarlegum uppruna sem setji eigin hagsmuni í forgang, á kostnað sameiginlegra hagsmuna. Þessi þróun ýti undir líkur á borgarastyrjöld á Vesturlöndum.

Screenshot-2025-08-14-at-10.29.36

Valdbeiting sé óhjákvæmileg takist tveir hópar á um þjóðfélagsskipan sem reist sé á ósamrýmanlegum grundvallarviðhorfum.

Hann segir að stöðugleikinn sé í mestri hættu í samfélögum sem séu í meðallagi einsleit. Þá kunni hefðbundinn meirihluti íbúanna að telja stöðu sinni ógnað. Einnig geti sú staða skapast að öflugur minnihluti telji sig hafa afl til að sækja fram einn.

Betz segir að þessi nýja staða í vestrænum þjóðfélögum hafi myndast með hópamyndun á tiltölulega skömmum tíma.

Við félagslega sundrungu bætast djúp vonbrigði með pólitísku elítuna, sem er sökuð um að lifa í einangrun og vera ófær um að skilja umfang vandans og veita áþreifanleg svör við honum. Við þetta myndast gjá og meðal jaðarsettra hópa magnast reiði sem grafi undan þjóðarsamheldni.

David Betz bendir á að samhliða félagslegri sundrungu auki lýðfræðileg sundrun hættu á skautun. Mikið fjölmenni innflytjenda í stórborgum skapi vaxandi gjá gagnvart dreifbýli, þar sem fjölbreytni uppruna íbúa sé mun minni. Þetta kynni að mynda átakalínur milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Hér verður að þessu sinni ekki sagt meira frá efni þessarar greinar. Hún ætti að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar eins og nágrannaþjóðir okkar. Þar styrkjast stjórnmálahreyfingar sem mótast af þeirri innri spennu sem einkennir lýðræðisleg þjóðfélög meira og meira. Galdurinn er að finna leiðir til að losa um spennuna án of mikilla fórna.