Íhaldssemi frekar en duttlunga
Þessi orð minna á hve margt ræðst af duttlungum frekar en íhaldssömu mati og skynsamlegri greiningu.
Skömmu fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum 6. nóvember 2019 birti ég grein í Morgunblaðinu (2. nóvember 2019) þar sem ég sagði frá bók eftir Max Boot, sérfræðing við hugveituna Council on Foreign Relations, dálkahöfund The Washington Post og ráðgjafa hjá CNN-sjónvarpsstöðinni. Bókin heitir: The Corrosion of Conservatism: Why I Left the Right – Tæring íhaldsins: Vegferð mín frá hægri.
Í bókinni lýsir Max Boot því hvernig Donald Trump tókst að hrekja hann frá Repúblíkanaflokknum. Boot gagnrýnir skilyrðislausa kröfu Trumps til allra frambjóðenda og þingmanna repúblíkana um að þeir sýni sér óskoraða hollustu hvað sem á dynur. Á árinu 2020 reynir á þessa kröfu af meiri þunga en áður vegna ákærunnar á hendur Trump sem fer fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings og forsetakosninganna í nóvember.
Á jóladag, 25. desember, birti Max Boot grein í The Washington Post þar sem hann fór lofsamlegum orðum um bresku sjónvarpsþættina Downton Abbey og íhaldssemina sem þar birtist. Hann sagði:
„Mild íhaldssemin í Downton Abbey er ekki stirðbusaleg, öfgafull hugmyndafræði þar sem fylgismennirnir halda í völd hvað sem það kostar. Þetta er mannúðleg, eðlislæg íhaldssemi sem endurspeglar visku heimspekingsins Michaels Oakeshotts: „ Að vera íhaldssamur er því að kjósa frekar það sem maður þekkir en hið ókunna, frekar það sem hefur verið reynt en hið óreynda, staðreynd frekar en ráðgátu, raunveruleikann frekar en hið hugsanlega, aðhald frekar en hömluleysi, nálægð frekar en fjarlægð, nægjusemi frekar en ofgnótt, þægindi frekar en fullkomleika, hlátur líðandi stundar frekar en staðlausa alsælu.“ „Íhaldsmenn“ nú á dögum verða að endurvekja þennan næmleika ætli þeir að bjarga hreyfingu sinni af brún hengiflugs þjóðernislegs popúlisma.“
Meginleitni
Áríð 1982 sendi Bandaríkjamaðurinn John Naisbitt (f. 1929) frá sér bókina Megatrends: Ten New Directions Transforming Our Lives – Meginleitni: Tíu nýir straumar sem breyta lífi okkar. Efni bókarinnar reisti hann á 10 ára rannsóknum. Bókin var í tvö ár á metsölulista The New York Times, oftast í efsta sæti. Hún var gefin út í 57 löndum og seldist í meira en 14 milljónum eintaka.
Á sínum tíma færði Naisbitt sterk rök fyrir ábendingum sínum um nýju straumana. Hann reisti niðurstöður sínar á greiningu á því sem hann las meðal annars í fréttum miðla sem hann treysti til að flytja áreiðanlegar fréttir og frásagnir.
Margt hefur breyst á tæpri hálfri öld og ekki allt til þeirrar áttar en Naisbitt taldi. Meðal meginbreytinga er gjörbylting í miðlun upplýsinga og aðgangi að upplýsingum. Nú er sérstök kúnst að velja og hafna við mat á upplýsingalindum vilji menn ekki láta blekkjast af falsfréttum.
Hér skulu nefndar tvær fréttir sem birtust skömmu fyrir jól á vefsíðunni vardberg.is og eru reistar á grænlenskum miðlum. Sú fyrri var um að skipafélagið The Royal Arctic Line á Grænlandi léti nú smíða skip til að þjóna austurströnd Grænlands með reglulegri viðkomu í Reykjavík. Hin snerist um að bandarísk stjórnvöld hefðu boðið grænlenskum útvarpsmönnum til Bandaríkjanna og í Maine-ríki fengu þeir þær fréttir að siglingar Eimskips til Portland í Maine yrðu til þess að gjörbreyta tengslum Grænlendinga til nágranna sinna í vestri.
Hér er sagt frá straumhvörfum í samskiptum Grænlendinga við umheiminn þar sem Íslendingar koma verulega við sögu. Spennandi verður að fylgjast með hvert framhaldið verður.
Duttlungar
Fjölmiðlamenn leggja margir mikla vinnu í að gera alls kyns annála í árslok. Þetta er efni sem vekur örugglega áhuga margra þótt það fljóti óséð eða ólesið fram hjá mér.
Forvitnilegt er að rýna í greinar formanna stjórnmálaflokkanna og velta fyrir sér hvers þeir láta ógetið. Í fljótu bragði sá ég hvergi minnst á breytingarnar á norðurslóðum sem snerta ekki aðeins okkur, íbúana þar, heldur hafa þær heimssögulegt gildi fari svo fram sem horfir. Þögnin um þessar miklu breytingar var álíka hrópandi og að enginn þeirra minntist á þriðja orkupakkann – mál málanna á þingi fram til 2. september 2019. Var það kannski ekki annað en bjarghringur Miðflokksins eftir kafsiglinguna á Klausturbar?
Að lokum tek ég undir orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur, menningarritstjóra Fréttablaðsins, sem segir í dag:
„Bókmenntaverðlaun eru lotterí og þar getur allt gerst. Víst er að höfundar fá ekki alltaf verðlaun fyrir bestu bækur sínar og stundum fá þeir ekki einu sinni tilnefningar fyrir þær. Um tímann og vatnið er tvímælalaust besta bók Andra Snæs Magnasonar. Um leið er hún bók ársins. Vel má flokka það sem reginhneyksli að hún hafi ekki verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún mun koma út í fjölmörgum löndum og á örugglega eftir að vekja þar mikla athygli.“
Þessi orð minna á hve margt ræðst af duttlungum frekar en íhaldssömu mati og skynsamlegri greiningu.
Ég þakka samleiðina á þessum vettvangi á árinu 2019.