Andri Snær leggur til atlögu
Umsögn í Morgunblaðinu 17. október 2019.
Andri Snær Magnason er snjall og hugmyndaríkur rithöfundur. Hann lætur sig málefni líðandi stundar varða og leitast við að færa þau í búning skemmtilegrar sögu – jafnvel þótt leiddar séu líkur að endalokum heimsins.
Vegna bókar sinnar Draumalandið flutti Andri Snær fyrirlestur á ráðstefnu í München og tók þátt í pallborðsumræðum með ónafngreindum yfirmanni Loftslagsrannsóknastofnunarinnar í Potsdam í Þýskalandi. Hann spurði Andra Snæ af hverju hann skrifaði ekki um loftslagsmálin, „mikilvægasta málefni samtímans“, heldur um „landslag, fossa og leynidali á fjöllum“.
Andri Snær sagði loftslagsmálin flókin og vísindaleg, betra væri að láta sérfræðinga um þau. Þjóðverjinn gaf sig ekki og sagði sérfræðingana ófæra um þetta, þeir kynnu ekki að miðla upplýsingum og töluðu því fyrir daufum eyrum. „Ef þú ert rithöfundur og finnur enga þörf hjá þér til að skrifa um þessi mál þá skilur þú ekki vísindin eða alvöru málsins. Sá sem skilur hvað er í húfi setur ekki annað í forgang.“
Andri Snær segist eiga til að brosa þegar eitthvað alvarlegt sé á seyði og maðurinn segir: „Ég er ekki að grínast, maðurinn skilur ekki tölur og línurit en hann skilur sögur. Þú kannt að segja sögur og þú verður að segja sögur.“
Síðar segir Andri Snær þetta: „Ég hlustaði á hann og fann hvað honum var mikið niðri fyrir. Það er eitt að hafa áhyggjur af stíflu á hálendi Íslands en er eitthvert vit í því að hafa áhyggjur af öllum heiminum? Hverslags Pandórubox gæti það verið að setja sig inn í þessi mál og kasta lífshamingjunni ofan í óendanlega hít?“ (Bls. 64-66.)
Þarna mótaðist rammi bókarinnar Um tímann og vatnið. Eitt enn má nefna sem verður þráður í bókinni. Þjóðverjinn telur stjórnmálamenn ekki átta sig á alvöru málsins. Hann segir: „Ef þeir skildu þetta af djúpri alvöru myndu þeir hrinda af stað Manhattan-áætlun. Þar voru tíu þúsund manns sendir út í eyðimörkina til að vinna fram á nótt, sleppa sumarfríum, jólafríum þar til þeir næðu markmiðinu að búa til kjarnorkusprengju. Jafnvel milljón manns er ekki mikið þegar framtíð jarðar er í húfi!“
Andri Snær tengir sig og þar með lesandann Manhattan-áætluninni vegna þess að skurðlæknirinn Björn Þorbjarnarson, afi hans, gerði aðgerð á Robert Oppenheimer, stjórnanda Manhattan-verkefnisins. Honum er lýst á þann veg í bókinni að hann hafi á 20. öldinni líklega verið sú manneskja sem „kemst næst því að hafa goðsögulega stöðu“. Oppenheimer er líkt við gríska guðinn Prómeþeif sem færði mannkyni eldinn. Oppenheimer „færði leiðtogum heimsins kjarnorkusprengjuna“ og þar með „guðlegt vald“.
Guðirnir refsuðu Prómeþeifi með því að binda hann við klett þar sem örn nagaði úr honum lifrina. Andri Snær spurði Björn, afa sinn, hvað hann hefði gert við Oppenheimer. Hvort það hefði nokkuð verið lifrin? Afinn vísaði til þagnareiðs síns sem læknis en svaraði: „Segðu bara að það hafi verið gyllinæð.“ (Bls. 124-125.)
Aðeins góður, agaður sögumaður og rithöfundur hefur á valdi sínu að tengja persónur og staði á þann listilega hátt sem Andri Snær gerir í þessari bók. Sem prentgripur er hún vel úr garði gerð. Sagan birtist ekki aðeins í textanum heldur einnig í ljósmyndum. Það hefði auðveldað lesandanum að efnisyfirlit og nafnaskrá hefðu fylgt. Aftast í bókinni er tilvísanaskrá og myndatextar.
Kýrin Auðhumla úr norrænni goðafræði Snorra Sturlusonar er meðal leiðarstefja í bókinni. Andri Snær vekur máls á Auðhumlu í samtali við Dalai Lama af því að hann sér líkindi með henni og Kailash-fjalli í Himalaja sem hann kallar „alheimskú“. Viðbrögðunum lýsir hann með þessum orðum: „Hans heilagleiki horfir á mig. Hann hvíslar að túlkinum sínum spyrjandi og horfir svo aftur á mig og fer að skellihlæja.“
Þetta var hér á landi í júní 2009. Enginn æðstu manna þjóðarinnar treysti sér til að hitta Dalai Lama. Líklega af hræðslu við reiði Kínverja sem óttast andlegan leiðtoga Tíbeta þótt hann segi aldrei styggðaryrði um kúgara þjóðar sinnar. Þegar Andri Snær gekk á fund hans heilagleika á Indlandi í júní 2010 man gestgjafinn auðvitað eftir „The Magic Cow“ – töfrakúnni Auðhumlu.
Aðeins hugmenn taka sér fyrir hendur að lýsa á 300 bls. áhrifum loftslagsbreytinganna til að almennur lesandi skilji hvað er í húfi. Sögumaðurinn Andri Snær leitast við að gera þetta með dæmum sem tengjast einstaklingum og stöðum – allt frá Melrakkasléttu til kóralrifja í Karabíska hafinu. Stórt sögusviðið og skírskotun til staða, manna og málefna um heim allan gera verkið alþjóðlegt á íslenskum grunni.
Forfeður hans og frændur koma við sögu og lýsingar á framtaki og afrekum þeirra eru til þess fallnar að auðvelda skilning á heimssögulegum breytingum. Tímaásinn myndar hann með aldri forfeðra sinna og hve langt fram í tímann hann sér nánustu afkomendur sína lifa.
Allt í framtíðinni er óþekkt og breytingar gera ekki boð á undan sér, ekki einu sinni þegar um ákvarðanir manna eða stjórnvalda er að ræða. Nægir þar að nefna að 9. nóvember 2019 verða 30 ár frá því að Berlínarmúrinn hrundi og þar með járntjaldið milli austurs og vesturs. Fram til þess tíma töldu margir sögulega óhjákvæmilegt ef ekki náttúrulögmál að kommúnisminn sigraði auðvaldið.
Undir lok bókarinnar segir Andri Snær:
„Jarðarbúar standa frammi fyrir áskorun sem á sér aðeins fordæmi í vísindaskáldsögum, að ná tökum á og stýra hlutfalli gastegundar í lofthjúpi hnattarins. Þetta markmið þarf að hafa náðst þegar börn í efstu bekkjum grunnskóla hafa náð mínum aldri [46 ára] og mín kynslóð fer á eftirlaun. Verkefnið snýst um að bjarga jörðinni og það verður ekki umflúið.“
Þegar Oppenheimer fékk tíu þúsund manns til að smíða kjarnorkusprengjuna var hættan af aðgerðarleysi öllum ljós. Skynjum við hættuna núna á sama hátt? Andri Snær leggur fyrir okkur verkefni. Hann bendir á leiðir til að leysa það af hendi. Aðrir kynna önnur sjónarmið og aðrar leiðir. Andri Snær hafði kjark til að leggja til atlögu gegn vágestinum og gerir það á glæsilegan hátt.