2.11.2018

Trump er þungamiðjan í þingkosningunum

Grein í Morgunblaðinu 2. nóvember 2018.

Kosið verður til Bandaríkjaþings þriðjudaginn 6. nóvember. Þetta eru svonefndar „midterm“ kosningar, til þeirra er efnt þegar forsetinn hefur setið hálft kjörtímabil sitt. Nú eiga repúblíkanar meirihluta í báðum deildum þingsins. Kosið er um alla 435 fulltrúadeildarþingmennina og 35 af 100 öldungadeildarþingmönnum, þá er kosið um 39 ríkisstjóra auk fjölda annarra embætta. Spáð er að repúblíkanar haldi meirihlutanum í öldungadeildinni en staða þeirra í fulltrúadeildinni er sögð tvísýn.

Gegn Trump


Fyrir skömmu gaf Max Boot, sérfræðingur við hugveituna Council on Foreign Relations, dálkahöfundur The Washington Post og ráðgjafi hjá CNN-sjónvarpsstöðinni út bókina The Corrosion of Conservatism: Why I Left the Right – Tæring íhaldsins: Vegferð mín frá hægri.

Boot kom til Bandaríkjanna á áttunda áratugnum, barnungur gyðingadrengur frá Sovétríkjunum með landflótta móður sinni. Hann hreifst af stefnu repúblíkana og barðist fyrir henni á háskólaárum sínum. Um nokkurt árabil var hann ritstjóri miðopnusíðu The Wall Street Journal og skrifaði leiðara í blaðið sem styður sjónarmið bandarískra hægrimanna.

Í bókinni um tæringu íhaldsins gerir Boot upp við Donald Trump sem hann telur óverðugan fulltrúa skoðana íhaldsmanna. Flokkur repúblíkana sé í svaðinu með hann sem forseta og þeir forystumenn flokksins sem láti sig hafa það að styðja Trump séu ekki trausts verðir. Boot færir rök fyrir máli sínu sem höfða að minnsta kosti sterkt til þeirra sem búa utan Bandaríkjanna og fylgjast af áhuga með því gerist í stjórnmálum þar án þess að hafa kosningarétt.

Í prófkjöri repúblíkana árið 2016 barðist Boot gegn Trump. Hann segir að sér hafi verið lífsins ómögulegt að styðja Trump frá því að hann birtist í anddyri Trump-turnsins í New York og talaði niður til Mexíkana sem nauðgara og morðingja.

Að slíkur maður skyldi vinna prófkjör repúblíkana og síðan forsetakosningarnar sjálfar hafi verið „mesta áfall lífs“ síns, segir Boot. Af þessum sökum hafi hann ákveðið að binda enda á aðild sína að Repúblíkanaflokknum og skráð sig utan flokka. Hann gat ekki verið félagi í „trumpvæddum Repúblíkanaflokki“.

161107120239-01-trump-parry-super-169Donald Trump

Boot segir að íhaldsstefnan sem Donald Trump boðaði fyrir kosningar og fylgi síðan sé í algjörri andstöðu við þá íhaldsstefnu sem hann aðhyllist og tengi mönnum eins og Ronald Reagan forseta og George Will, þjóðkunnum bandarískum dálkahöfundi. Í þeirri stefnu gæti miklu meiri bjartsýni en hjá Trump, hún sé opnari og höfði til margra án þess að brennimerkja minnihlutahópa, í henni felist áhersla á hnattrænt forystuhlutverk Bandaríkjanna, frjálsa verslun og takmörkun ríkisumsvifa á heimavelli. Trump standi fyrir ofstæki og fordóma, hann búi í haginn fyrir rasisma, kvenfyrirlitningu og útlendingaandúð, ali á sundrung meðal Bandaríkjamanna og ýti undir samsæriskenningar.

Til stuðnings Trump


David Gelernter, tölvunarfræðiprófessor við Yale-háskóla og forstjóri  Dittach LLC, skrifaði á dögunum grein í The Wall Street Journal undir fyrirsögninni: Raunverulega ástæðan fyrir hatri þeirra á Trump. Hann er yfirstærð af venjulegum Bandaríkjamanni – hispurslaus, einfaldur, klár í slaginn, tortrygginn í garð menntamanna. Í greininni segir:

„Allar kosningar í Bandaríkjunum eru áhugaverðar, komandi kosningar eru þó hrífandi af ástæðu sem flestir álitsgjafar gleyma að nefna: Demókrata skortir öll málefni. Efnahagslífið blómstrar og staða Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi er sterk. Í utanríkismálum minntust Bandaríkjamenn þess á hárréttu augnabliki sem Machiavelli ráðlagði prinsunum fyrir fimm öldum: Sækist ekki eftir að vera elskaðir, sækist eftir að skapa ótta.[...]

Nú á vinstrið aðeins eitt málefni eftir: „Við hötum Trump.“ Þetta er forvitnilegt hatur, vinstrið hatar Donald Trump vegna nákvæmlega þess sama og veldur hatri þess á Bandaríkjunum. Afleiðingarnar skipta máli og eru sársaukafullar.

Málum er ekki þannig háttað að allir vinstrsinnar hati Bandaríkin. Vinstrisinnar sem ég þekki hata hins vegar dónaskap Trumps, vilja hans til að taka slaginn, ónærgætni hans, vissu hans um sérstöðu Bandaríkjanna, tortryggni hans í garð menntamanna og að hann skuli neita að trúa að konur og karlar séu jafngild. Verst af öllu þá stjórnist hann ekki af neinni hugsjón heldur því einu að láta verkin tala. [...]

Trump minnir okkur á hver venjulegi Bandaríkjamaðurinn er í raun. Ekki aðeins venjulegi bandaríski karlmaðurinn eða venjulegi hvíti Bandaríkjamaðurinn. Við vitum fyrir víst hvað gerist 2020, menntamennirnir verða orðlausir yfir þeim fjölda kvenna og blökkumanna sem greiðir Trump atkvæði. Hann er ef til vill að draga upp nýtt pólitískt landakort: venjulegi Bandaríkjamaðurinn andspænis þeim sem slá um sig.[...]

Þeir sem kusu Trump og ætla að kjósa frambjóðendur hans nú í nóvember hafa áhyggjur af þjóðinni ekki ímynd hennar. Forsetinn á rétt á virðingu okkar af því að Bandaríkjamenn eiga rétt á henni – ekki þeir sem slá um sig í aukahlutverkum eins og álitsgjafar sjónvarpsstöðvanna, sósíalískir framhaldsskólakennarar og framúrskarandi prófessorar heldur mannskapurinn sem hefur gert Bandríkin mikil og gerir þau stöðugt meiri.“

Trump er þungamiðjan


Þótt Trump sé ekki í framboði í kosningunum í næstu viku hefur hann dögum og vikum saman sótt kosningafundi víðsvegar um Bandaríkin til að viðra skoðanir sínar og rækta bein tengsl sín við kjósendur.

Trump er sem fyrr ómyrkur í máli um andstæðinga sína. Þeir deila ekki á hann vegna málefna heldur vegna framgöngu hans og málflutnings. Hann hafi ekki þann myndugleika sem hæfi þjóðhöfðingja, í stað þess að hvetja til samheldni ýti hann undir sundrung. Afleiðingar stjórnarhátta hans birtist svo í öfgafullum aðgerðum stuðningsmannanna eins og því að senda bréfsprengjur til andstæðinga Trumps. Þá sætir hann gagnrýni eftir að skotglaður gyðingahatari í Pittsburgh myrðir 11 manns í bænahúsi gyðinga. Þegar bent er á að hann hafi lagt sig fram um stuðning við málstað Ísraels, meðal annars með flutningi bandaríska sendiráðsins til Jerúsalem, er blásið á allar slíkar röksemdir. Hann ali á illsku í þjóðfélaginu í stað þess að laða fram ágæti þess.

Ekkert náttúrulögmál ræður þessari stöðu Trumps og bandarískra stjórnmála heldur hann sjálfur. Hann deilir og drottnar. Vegna þess hvernig Trump heldur á málum og sækist sífellt eftir sviðsljósinu kallar hann á að dómur kjósenda í kosningunum verði dómur yfir honum.

Stóra spurningin er hvort Trump hafi með málflutningi sínum tekist að flytja venjulega kjósendur demókrata til fylgis við sig á sama tíma og hann fælir frá sér og flokki sínum menn á borð við Max Boot, álitsgjafa og menntamenn. Misnotar Trump íhaldsstefnuna og gerir einlægum hugsjónamönnum hennar óleik en laðar jafnframt þá sem áður kusu Demókrataflokkinn til fylgis við sig?