Hvassahraun í bið – grisjun hafin
Þegar vakin er vonarglæta um nýtt flugvallarstæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er aðeins haldið lífi í umræðum sem staðið hafa áratugum saman án endanlegrar niðurstöðu.
Sagan endalausa um að leita að flugvallarstæði í staðinn fyrir flugvöllinn í Vatnsmýrinni heldur áfram. Við sem héldum að nefndin sem síðast var falið að kanna flugvallarstæði í Hvassahrauni myndi fella lokadóm, eins og um var talað, undrumst að hún skilur við málið á gráu svæði.
Fram kemur að veðurfar eigi ekki að standa í vegi fyrir flugvelli þarna. Ómar Ragnarsson, fyrrv. fréttamaður og þaulreyndur flugmaður við allar aðstæður hér á landi, segir í bloggi sínu í dag (2. október) að svo virðist sem nefndin, sem sat að störfum í fjögur ár, hafi strokað út hættuna af austsuðaustanátt í Hvassahrauni, einkum þegar dýpstu lægðirnar koma af landinu. Ómar segir:
„Versti ókostur þessarar vindáttar er ekki tíðnin heldur ókyrrðin af norðurhlíð Lönguhlíðar, sem rís í meira en 600 metra hæð yfir sjávarmáli í aðeins 15 km fjarlægð frá vellinum og veldur hættulegri ókyrrð.“
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður nefndarinnar, sagði í Kastljósi 1. október ekki líklegt að skýrsla nefndarinnar yrði til að höggva á hnútinn um Reykjavíkurflugvöll og hann byggist ekki við að næstu skref yrðu stigin strax.
Starfshópurinn vill að verkefnið verði fært á næsta stig, hvenær sem af því verði. Taka megi tillit til náttúruvár við hönnun og byggingu mannvirkja. Rétt sé að bíða niðurstöðu áhættumats áður en þessi flugvallarkostur sé afskrifaður.
Á vef stjórnarráðsins birtist þessi skýringarmynd á stað fyrir flugvöll í Hvassahrauni á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í Morgunblaðinu 2. október að staðan á Reykjanesskaga sé gerð enn verri með því að halda áfram með hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni. Segir hann meiri líkur á að hraun flæði yfir það svæði en þar sem flugvellir eru nú þegar.
Þegar vakin er vonarglæta um nýtt flugvallarstæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er aðeins haldið lífi í umræðum sem staðið hafa áratugum saman án endanlegrar niðurstöðu. Rökin gegn Reykjavíkurflugvelli eru kunn og léttvæg. Völlurinn verður áfram á sínum stað enn í nokkra áratugi. Hann er einfaldlega besti og hagkvæmasti kosturinn í stöðunni.
Ítrekaðar tilraunir andstæðinga vallarins til að afskrifa hann hafa mistekist. Árum saman hefur meirihluti borgarstjórnar meira að segja staðið gegn því að grisja tré í Öskjuhlíðinni í von um að vöxtur þeirra verði til að vega svo að flugöryggi að umferð minnki um völlinn.
Samgöngustofa gaf borginni frest til 2. september 2024 til að hefja grisjun í hlíðinni ella yrði gripið til hennar með valdi á kostnað borgarsjóðs. Nýlega voru 35 tré fyrir austan brautarenda felld.
Fyrir fjármunina sem renna til endurtekinna rannsókna gegn Reykjavíkurflugvelli hefði mátt reisa varanlega flugstöð við völlinn. Þegar að slíkri framkvæmd kemur skortir hins vegar vilja og fjármuni. Þeir sem hafa ekki þrek til að taka af skarið um flugstöðvarbyggingu á Reykjavíkurflugvelli vilja vera áfram á gráa svæðinu þar sem enginn veit hvort þeir eru að koma eða fara.
Allt bendir til að Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra ákveði að búa um sig til næstu ára á því gráa svæði sem nefndin færði þeim.