26.6.2021 10:53

Hömlum aflétt – smáatviks minnst

Þegar upp er staðið ber fremur að skoða atvikið í Ásmundarsal með pólitískum gleraugum en frá sjónarhóli sóttvarna.

Sóttvarnahömlur giltu hér í 15 mánuði og átta daga. Þeim er aflétt í dag (26. júní 2021) þegar tæplega hálft ár frá því að fyrsti bóluskammturinn gegn COVID-19-veirunni barst til landsins. Tveir kassar af Pfizer-bóluefni komu með leiguþotu frá Amsterdam að morgni 28. desember 2020.

Á covid.is má sjá að 25. júní 2021 höfðu alls 386.715 skammtar af bóluefni verið gefnir hér, 258.852 einstaklingar höfðu fengið að minnsta kosti einn skammt, 177.540 einstaklingar voru fullbólusettir. Án þessa mikla árangurs við bólusetningu hefði ákvörðunin um að aflétta sóttvarnahömlunum ekki verið tekin.

1248663_1624704543689Almannavarnir sendu þessa mynd frá sér 28. desember 2020 þegar fyrstu tveir kassarnir með Pfizer-bóluefni bárust til landsins frá Amsterdam. Síðan hafa flestir Íslendingar verið sprautaðir með þessu bóluefni. Án bólusetninganna hefði ekki verið unnt að aflétta sóttvarnahömlum í dag.

Hér var sóttvörnum ekki fylgt fram af jafnmikilli hörku og í mörgum löndum sem enn glíma við mikinn vanda. Lögregla sektaði þó nokkra staðarhaldara fyrir að fara ekki að settum reglum. Lögregla hélt einnig umræðum lengst vakandi um eina sektargerðina, vegna Þorláksmessu í Ásmundarsal, nefndi hún „háttvirtan ráðherra“ til sögunnar í dagbók sinni um kvöldgesti þar.

Fór meira fyrir fréttum ríkisútvarpsins af atvikinu í Ásmundarsal á Þorláksmessu 2020 en af sektargerð lögreglustjórans yfir húsráðendum hálfu ári síðar. Fréttaflutningur af því sem gerðist í Ásmundarsal varð á aðfangadag jóla til þess að píratinn í borgarstjórn, Dóra Björt Guðjónsdóttir, réðst á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og flokkinn á FB-síðu sinni þar sem sagði m.a.:

„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara óábyrgur flokkur heldur einfaldlega hættulegur. Ekki einu sinni heimsfaraldur rýfur samstöðu flokksins um sjálfhverfu og ábyrgðarleysi. Við skulum sameinast um að koma þessu fólki úr valdastöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er geislavirkur..

Á jóladag ræddi fréttastofan við Jón Þór Ólafsson, þingmann pírata. Hann sagði að innan þingflokks pírata ræddu menn hvort flytja ætti vantrauststillögu á Bjarna Benediktsson.

Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir bauð að kvöldi annars dags jóla forystumönnum VG og Framsóknarflokksins að píratar myndu styðja minnihlutastjórn þessara tveggja flokka enda styddi minnihlutastjórnin sambærilega leið í stjórnarskrármálinu og farin var vorið 2013 þegar tillögum stjórnlagaráðs var ýtt til hliðar.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að Bjarni Benediktsson hlyti að „íhuga alvarlega“ að segja af sér að öðrum kosti væri „undarlegt ef hann nyti ennþá fulls trausts annarra flokka í ríkisstjórn og meirihluta Alþingis“.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, lifa enn í þeirri von hálfu ári eftir þetta sóttvarnaatvik að nota megi það í flokkspólitískum tilgangi fyrir Samfylkinguna.

Þegar upp er staðið ber fremur að skoða atvikið í Ásmundarsal með pólitískum gleraugum en frá sjónarhóli sóttvarna. Það er hálmstrá sem andstæðingar ríkisstjórnarinnar grípa í von um að auka stundarfylgi sitt og vinsældir.

Þetta er dæmigerður popúlismi og undir merkjum hans sameinast Píratar og Samfylking og síðan ný-vinstriflokkurinn Viðreisn þegar spjótum er beint gegn Sjálfstæðisflokknum og þar að auki Kjarninn. Hálmstráin berast oftast frá fréttastofunni við Efstaleiti sem haldið er úti af skattgreiðendum.